13.03.1930
Efri deild: 50. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2294 í B-deild Alþingistíðinda. (3052)

117. mál, jarðræktarlög

Jón Þorláksson:

Ég mun greiða atkv. með brtt. n. og með þessu frv., a. m. k. við þessa umr.

En út af því, að mér þótti hæstv. fjmrh. svo óvenjulega hikandi í ummælum sínum um það, hvort það væri eiginlega gerlegt að bæta þessum árlega útgjaldaauka á ríkissjóð, þá vildi ég aðeins skjóta því til hv. n., hvort hún sæi sér ekki fært, í samráði við hæstv. fjmrh. og fjvn., að athuga þetta mál, þannig að það gæti legið nokkurn veginn skýrt fyrir við 3. umr., hvort hæstv. stj. þykir forsvaranlegt að taka á móti þessum árlega útgjaldaauka. Og ég skal segja það, að ef hæstv. stj. sér þetta fært, þá skal það vera mér ánægja að greiða frv. atkv. úr hv. deild.