15.03.1930
Efri deild: 52. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2295 í B-deild Alþingistíðinda. (3057)

117. mál, jarðræktarlög

Guðmundur Ólafsson:

Það var talað allmikið um þetta mál við 2. umr., svo mikið, að mig var farið að langa til að taka þátt í umr. þá. Svo hélt ég, að allt væri búið, einkum þegar hv. þdm. virtust vera ánægðir með, að málið héldi áfram, er þeir greiddu því allir jákvæði með nafnakalli við 2. umr. Og ég tók það sízt í höfuðið þá, að maður myndi eiga von á þessu hreggi þaðan, sem það kom, því að þótt þessi hæstv. ráðh. sé nú kominn í þetta valdasæti, þá hefi ég þó í rauninni skoðað hann sem samverkamann okkar landbænda, og því datt mér sízt í hug, að hæstv. ráðh. færi að reyna að klípa af þessum styrk, ekki hærri en hann er nú ákveðinn í frv. Mér finnst, að það vaki sama fyrir hæstv. ráðh. og fjárríkum bónda, sem ætti það á hættu að missa alla hjörðina, en þætti tjónið ekki svo mikið, ef hann bjargaði minnsta lambinu. Þetta er það, sem hæstv. ráðh. verður að gera sér að góðu um meðferð fjárl. á þinginu, hann verður að dragast með þótt þingið segi honum, að hann verði að borga á næstu árum tugi þúsunda, hundruð þúsunda eða jafnvel milljónir. Þar kemur hæstv. ráðh. engri vörn við, ef meiri hl. þings vill hafa það svo. En það er þó undarlegt, hvernig bæði hæstv. ráðh. og sumir aðrir líta á þetta. Í sumum tilfellum gerir það ekkert, þótt það sé verið að gera ríkissjóði að skyldu að greiða svo skiptir hundruðum þúsunda á ári, ef það er til einhvers viss hlutar, sem að engu leyti getur bætt hag þjóðarinnar, en ef það er sýnilegt, að búast má við, að það bæti hag hennar eða ríkissjóðs síðar, eða að það verði greitt aftur á sínum tíma, þá gengur allt erfiðara að fá því framgengt. Það er nokkuð líkt og sagt var um banka einn hér á landi, að erfitt var að fá hjá honum smáar upphæðir, ef sæmilegar tryggingar voru fyrir hendi, en ef lánsupphæðin skipti hundruðum þúsunda eða meira, og engin eða lítil trygging boðin, þá gekk allt vel. — Það eru líklega tímarnir yfirstandandi, sem gera þetta, og það lítur helzt út fyrir, að hæstv. fjmrh. sé eitthvað smitaður af þessari venju. En ég hefi alltaf verið henni mótfallinn og held, að það geri jafnvel ekkert til; þótt látið sé heimilt úr ríkissjóði nokkurt fé, ef það er til arðvænlegra framkvæmda, og myndi verða viss hagur að því fyrir þjóðina. Að ég ekki fari þarna með fleipur út í loftið, má sanna með því, að tveir hv. þm. töluðu mikið á móti þessu frv. vegna fjárhags ríkissjóðs. Ég er ekki að tala um þetta nú af því, að ég sagði ekkert um málið þá, heldur nefni ég þetta af því, að þeir voru þá rétt áður búnir að halda fram máli, sem hefði orðið jafnkostnaðarmikið fyrir ríkissjóð. Þeir töluðu á móti þessu máli við 2. umr., og þeir geta átt eftir að gera það við þessa umr. Ég játa, að það er nokkuð mikil upphæð, sem gert er ráð fyrir í frv., ef það eru 75 þús. kr. á ári, en ég held, að það sé allt of ríflega áætlað, a. m. k. í byrjun, og ég lít svo á, að ekki sé rétt að láta hlöðurnar sitja alveg á hakanum, og það jafnvel þótt þyrfti að lækka eitthvað styrk til annara jarðabóta, því hve mikill tími og vinna er það ekki, sem árlega fer í tóftirnar, og hve mikið er það ekki, sem þarf að eyðileggja jörðina með allri torfristunni, er af þeim leiðir? Nei, það hefði aldrei getað sett stóran blett á hæstv. fjmrh. og hv. d., þótt þetta fengi að ganga fram, og ég fyrir mitt leyti hefði ekki álitið það neitt óhyggilegt, þó að það hefði eitthvað síðar þurft að rýra styrkinn til annara jarðabóta vegna þessa gjalds til hlaðnanna.

Eitt af því, sem hæstv. fjmrh. færði fram fyrir réttmæti þessarar brtt., var það, að nú væri 50 aura styrkur á dagsverk í votheystóftum. En það er ekki sambærilegt, því að þær eru frekar undantekningar í mörgum héruðum, en hæstv. ráðh. gat um, að gott væri að hafa þær, ef þyrfti að hirða í vothey í óþurrkaári. Jú, það er rétt, en það er gott að hafa þurrheyshlöður í hvaða ári sem er, því að það mun venjulega vera svo í flestum héruðum, að það verði minnst hirt í vothey; það þykir aðeins gott að hafa það með. Þá er þurrheyshestur mikið rúmfrekari í geymslu en votheyshestur.

Það, sem hæstv. ráðh. sagði um 2. mgr. 1. gr., sem hann vill fella úr frv., skiptir náttúrlega engu máli, en það þótti þó einn kostur við frv. áður, að það var tekin viss upphæð, sem átti að verja til þessara hluta.

Ég býst nú ekki við, að það þýði mikið að tala frekar um þetta. Það er ekki svo flókið mál, enda hafa hv. þdm. líka getað áttað sig á því, og eins þeir, sem hafa sömu skoðun og hæstv. ráðh., að gott sé að fara gætilega með ríkissjóð, þegar um styrk til arðvænlegra fyrirtækja er að ræða, og það er þegar vitað, hvernig þeir greiða atkv. Vonandi verða þeir svo varkárir á morgun og hinn daginn, en ég hefi ekki þekkt það til þeirra, að þeir hafi verið svo varkárir að undanförnu.