15.03.1930
Efri deild: 52. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2299 í B-deild Alþingistíðinda. (3059)

117. mál, jarðræktarlög

Páll Hermannsson:

Ég get tekið undir með þeim, sem hafa látið þá skoðun í ljós, að það muni vera gott fyrir þjóðfélagið, að stuðla að því, að meira yrði til af góðum hlöðum í landinu heldur en nú er, og ég vil leggja alveg sérstaka áherzlu á það, að þegar ýtt verður við mönnum til þess að hefjast handa um byggingar á slíkum húsum, þá er alveg lífsnauðsynlegt að gera það á þann hátt, að þær byggingar, sem til verða, verði góðar. Alveg það sama þarf að eiga sér stað um ýmsar jarðræktarframfarir. Ef löggjafinn megnar að hafa hönd í bagga með því, að þær framkvæmdir, sem styrktar verða eftir jarðræktarlögunum, séu góðar, varanlegar og vel gerðar, þá er ég sannfærður um, að það kemur aldrei til þess, að þjóðin þurfi nokkurntíma að sjá eftir því fé, sem til þess verður varið.

Að því leyti sem við kemur brtt. þeim, sem hér liggja fyrir, þá vildi ég mega henda á það, að frá mínu sjónarmiði er ekki alveg hliðstætt um votheysgryfjur og þurrheyshlöður. Það liggur sem sé í því, að þurrhey er miklu fyrirferðarmeira heldur en vothey, þannig, að ef á að vera um reglulega vandaðar þurrheyshlöður að ræða, þá býst ég við, að það verði miklu dýrara rúm fyrir hvern hest af þurru en votu heyi.

Ég get verið alveg sammála hv. þm. A.Húnv. um það, að hlöðuleysið veldur því, að mikil vinna gengur til heyja, sem annars hefði getað gengið til annars, t. d. ýmiskonar jarðabóta, en ég vil líka benda á það, að hlöðuleysið, og þá sérstaklega þær hinar óvönduðu hlöður, valda oft svo miklum skemmdum á heyjum, að stórfé nemur, bæði beinlínis og óbeinlínis. Mér er það svo kunnugt víða um land, að skemmdir, sem koma fram í heyjum vegna þess að þau eru ekki sæmilega geymd, hafa oft valdið stórtjóni. Það er ekki svo sjaldgæft, að þau vandræði, sem stafa af vondu og skemmdu fóðri, stappi nærri því að koma bændum, sem fyrir verða, á kaldan klaka.

Ég var í gærkveldi að lesa ritling, sem færði mér heim sanninn um það, að hæstv. fjmrh. hefði a. m. k. verið íslenzkur bóndi, því að ég veitti því eftirtekt þar, að hann á einmitt þá beztu kú, sem menn ætla að til sé á landinu, og þessi góða og nytháa kýr, hafði eingöngu verið fóðruð á heyi. Af þessu dreg ég þá ályktun, að hæstv. ráðh. muni eiga góða hlöðu og vita vel, hvað góðar hlöður þýða. Ég dreg þetta af því, að hæstv. ráðh. myndi ekki hafa átt beztu kúna, fóðraða eingöngu á heyi, ef hann hefði ekki geymt hey sitt einungis í góðri hlöðu.

Ég mun greiða atkv. á móti þeirri brtt. hæstv. ráðh. að lækka styrkinn, en hinsvegar vildi ég gjarnan greiða atkv. með hinu atriði till., um að fella niður hámarksákvæðið, ekki svo mikið vegna þess, að ég búist við, að upp úr hámarkinu fari jafnaðarlega, heldur af því, að þegar mér er bent á það, þá verð ég að viðurkenna, að hámarkið er óeðlilegt, af því að það er einu sinni ætlazt til þess að styrkja dagsverkið í þessum mannvirkjum, og það gæti viljað til, að það yrði einhverntíma meiri eðlileg og réttmæt eftirspurn eftir þessum styrk á ári heldur en næmi þessari hámarksupphæð.