16.04.1930
Neðri deild: 84. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1097 í B-deild Alþingistíðinda. (306)

1. mál, fjárlög 1931

Gunnar Sigurðsson:

Ég kemst ekki hjá því að svara hæstv. atvmrh. nokkrum orðum út af máli, sem ég var neyddur til að innleiða hér í þessar umr., járnbrautarmálinu, af því að það komst ekki út úr d. af þeim ástæðum, að ekki kom skýrsla frá vegamálastjóra, sem ríkisstj. hafði fullyrt að mundi koma.

Hæstv. ráðh. talaði um framhaldandi rannsókn í þessu máli. Við Sunnlendingar erum orðnir dálítið þreyttir á og langeygðir eftir þessari rannsókn, því að við álítum það fyllilega rannsakað af Sven Möller. En svo lítur út á síðustu tímum, að það sé hugsun stj. að gera þetta samgöngumál Sunnlendinga að nokkurskonar eilífðarmáli. Það kemur til af því óláni, hve Sunnlendingar standa lítt saman, að þetta sjálfsagða samgöngumál er ekki komið fram. Mér hættir ekki til að rasa að stórmálum; ég hugsa um þau áður, en það er ég sannfærður um, að ekkert annað en járnbraut leysir samgönguvandræðin yfir heiðina. Enda er enginn sérfróður maður, sem heldur öðru fram, nema þá undir pólitískum áhrifum.

Hæstv. atvmrh. sagði í þessu sambandi, að hann treysti því, að gerðar yrðu samgöngur, sem væru nokkurnveginn ábyggilegar. En það er ómögulegt að byggja framtíð Suðurlands á öðru en því að fá járnbraut, því að hún er tryggasta samgöngutæki, sem hægt er að fá. Eigi að byggja bílveg, sem dugir eins vel, sem hann aldrei mundi gera, yrði kostnaðurinn jafnmikill eða meiri.

Ég skal ekki tefja tímann lengur á þessu máli, en ég ætla að minnast á annað stórmál, sem ég vona að verði ekki gert að eilífðarmáli, og það eru vatnamálin, sem eru annað stærsta samgöngumál Rangæinga, og Skaftfellinga reyndar líka. Ég held því fast fram, að það verði að taka föstum tökum á því máli og byrja strax á næsta ári.

Þá vildi ég minnast lauslega á eitt mál enn. Ég bar fram þáltill. í fyrra út af útflutningi á hrossum, bæði um að lækka taxtana, sem stj. gekk í, og fekk hún 5 kr. lækkun á flutningsgjöldum á hrossum, en það var líka um að fá afnuminn þýzkan toll, sem hægt var að fá afnuminn, en í því hefir lítið verið gert. Ég hefi hugsað mér að fara utan að afloknu þingi til að semja um hrossakaup í Danmörku og Englandi, og eins til að hrinda þessu áleiðis. Vænti ég stuðnings stj. í því efni. Ég get þess, að hæstv. stj. hefir boðið mér að styrkja för mína, en vegna þess að ég býst við, að andstæðingablöðin komi strax með bitlinginn, skora ég á þá, sem eitthvað hafa við þetta að athuga, að láta til sín heyra strax. Því að ég óska ekki eftir bitlingum frá stj. og hefi aldrei gert það. En ég hefi svo að segja einn staðið í því að koma þessari vöru bænda í verð, og þótt aðallega hafi þetta snert Suðurland, hafa þó tvö síðustu ár verið rekin hross í stórum stíl frá Norðurlandi hingað suður.

Þetta vildi ég taka fram til þess að vernda mig fyrir ámæli um þennan bitling, og telji einhver þetta eftir, mun ég snúa mér til fjvn. og ég er viss um, að ég get fengið meiri hl. hennar til þess að styrkja þessa för mína.