14.04.1930
Neðri deild: 79. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2304 í B-deild Alþingistíðinda. (3072)

117. mál, jarðræktarlög

Bjarni Ásgeirsson:

Tilgangurinn með þeirri brtt., sem ég hefi leyft mér að flytja á þskj. 513, er sá, að samrýma ákvæðin um styrk til hlöðubygginga öðrum ákvæðum jarðræktarlaganna.

Í þessu frv. eru ákvæði um það, hvað greiða skuli á hvert hlöðudagsverk, og sömuleiðis, hve háan styrk megi veita sama manni árlega. Og loks er svo þriðja takmarkið sett um það, að þessi styrkur megi ekki fara fram úr 50 þús. kr. Nú má vel svo fara, að þessi styrkur nægi ekki. Segjum t. d., að byggðar væru svo margar hlöður eitt árið, að samkv. frv. ætti að veita 100 þús. kr. til þeirra, sem hefðu látið byggja þær. Þar sem þessi styrkur er nú takmarkaður við ákveðna upphæð, yrði afleiðingin sú, að helmingur þessara manna væri sviptur styrknum. Væri slíkt hróplegt ranglæti.

Ég vil því láta miða við dagsverkin, þannig að útgjöld hvers árs fari eftir því, hve mikið er byggt á hverju ári. Í samræmi við það legg ég til, að hámarkið verði fellt niður.