14.04.1930
Neðri deild: 79. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2305 í B-deild Alþingistíðinda. (3073)

117. mál, jarðræktarlög

Jón Sigurðsson:

Ég býst við, að frsm. taki til máls, því að þessi brtt. gengur í bága við brtt. n. Veit ég ekki betur en að n. sé á einu máli um þetta frv., eins og nál. ber með sér, þó að ég hinsvegar hafi ekki heimild til þess að tala fyrir nefndarinnar hönd.

Úr 1. brtt. n. við 2. umr. höfðu fallið niður orðin: allt að. N. lagði þar til, að í stað kr. 0.75 á hvert hlöðudagsverk komi kr. 0.50, en átti að vera: allt að kr. 0.50. Eins og þetta er nú orðað í frv., lítur út fyrir, að það stangist við ákvæðið um, að engum megi veita hærri styrk en 500 kr. Mun ég því bera fram skriflega brtt. í þessa átt.

Till. hv. þm. Mýr. hnígur að því, að hámarkið sé fellt niður. Er mér ekki grunlaust um, að þetta eigi að vera nokkurskonar uppbót fyrir það, að menn voru sviptir jarðræktarstyrknum. Ég get að vísu metið þessa viðleitni hv. þm. Mýr., þótt þetta verði að teljast hundsbætur. En þar sem fyrir liggur þáltill. um að kippa jarðræktarstyrknum aftur í sama horf, og ég vænti þess, að sú till. komi til atkv., mun ég fylgja brtt. n.