14.04.1930
Neðri deild: 79. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2305 í B-deild Alþingistíðinda. (3074)

117. mál, jarðræktarlög

Frsm. (Lárus Helgason):

Ég ætla að láta brtt. hv. þm. Mýr. afskiptalausa. Það er kunnugt, að hv. Ed. sækir það fast, að sett verði hámark við þessum styrk, en allar horfur eru á, að litlu máli skipti, hvort svo verður gert eða ekki, því að það eru litlar líkur til þess, að byggðar verði svo margar hlöður, að þessi styrkur nægi ekki. Ég gæti fremur trúað, að það yrði afgangur heldur en hitt.

Þessi brtt. er því þess eðlis, að það tekur því ekki að vera að togast á um hana. Fyrir n. hönd get ég hinsvegar ekkert um hana sagt, því að n. gafst ekki tækifæri til að kynna sér hana. Hefir því hver nm. óbundnar hendur um till. Það, sem ég hefi sagt, er fyrir eiginn reikning mælt.