12.03.1930
Neðri deild: 51. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 98 í B-deild Alþingistíðinda. (31)

1. mál, fjárlög 1931

Haraldur Guðmundsson:

Ég kann ekki við að láta umr. enda svo, að hv. frsm. taki einn til máls, enda á ég nokkrar brtt. við þennan kafla fjárl., sem ég sumpart flyt einn, en sumpart ásamt öðrum þm. Mun ég að þessu sinni aðeins minnast á þær brtt., sem ég er 1. flm. að, eða þá flyt einn.

Kem ég þá fyrst að till. minni um að hækka þá upphæð, sem veitt er til námsstyrkja samkv. ákvörðun menntamálaráðs. Í frv. stj. er gert ráð fyrir 10.000 kr. í þessu skyni. Fjvn. hækkaði upphæðina í 12,000 kr., en till. mín gengur út á, að upphæðin hækki upp í 15.000 kr.

Menntamálaráðið kom á fund fjvn. og tjáði henni vandræði sín, þar sem miklu fleiri hefðu sótt um þennan styrk en hægt hefði verið að veita nokkra úrlausn til þessa. Þeir stúdentar, sem stunda nám hér við háskólann, fá ókeypis kennslu, auk þess sem þeim er ódýrara að dvelja hér en þeim stúdentum, sem stunda nám erlendis. Hinsvegar er ekki kostur að nema hér heima nema fáar fræðigreinir, og eru því margir neyddir til að leita út fyrir landsteinana, til þess að afla sér menntunar í þeim greinum, sem ekki eru kenndar við háskólann hér. Til þessa hefir verið tekið tillit, þannig að jafnan hefir verið veitt ákveðin upphæð til að styrkja ákveðna tölu stúdenta til að stunda háskólanám erlendis. En þessi upphæð hefir verið svo smávaxin, að Alþingi hefir ávallt orðið að bæta ýmsurn styrkjum við. Var þá sú regla tekin upp að veita hina svonefndu persónustyrki, þar til í fyrra, að hólfið var að því ráði að veita eina upphæð í þessu skyni, sem menntamálaráðið úthlutaði. Nú eru það eindregin tilmæli menntamálaráðsins, að þessi styrkur verði hækkaður að mun frá því, sem er í frv. stj., þar sem svo margir sæki um hann, að slíkt sé óhjákvæmilegt, og hefi ég af þeim ástæðum borið fram þessa brtt.

Svipað er um styrkinn til skálda og listamanna að segja. Stj. leggur til, að þessi styrkur verði 6.000 kr. og sýnir í því sína dæmalausu sparsemi. Sú var nú tíðin, að þessi styrkur var hærri. Til dæmis nam hann 27.000 kr. árið 1920, og þótti þó ekki of ríflegur þá. Síðan hefir hann alltaf verið að minnka. Í fyrra var hann 8.000 kr., og nú hefir stj. enn vegið í þennan knérunn og lækkað hann niður í 6.000 kr.

Menntamálaráðið tjáði fjvn., að um þær 8.000 kr., sem veittar eru í styrk til skálda og listamanna í fjárl. yfirstandandi árs, hefðu sótt 36 menn. Átta af þeim fengu dálitla úrlausn, en hinir 28 ekki neitt nema neiið. Menntamálaráðið gerði hinsvegar ráð fyrir því, að ef það fengi 12.000–15.000 kr. til ráðstöfunar í þessu skyni, mundi verða hægt að hjálpa þeim listamönnum, sem sérstaklega skara fram úr, svo, að þá munaði það einhverju, sérstaklega þar sem hægt væri að styrkja málara og myndhöggvara með því að kaupa verk þeirra fyrir nokkuð af tekjum Menningarsjóðs.

Um 13. brtt. á þessu sama þskj. (260), þar sem lagt er til, að skólagjöldin við tilgreinda skóla falli niður, þarf ég ekki að fjölyrða. Ég get látið mér nægja að vísa til þess, sem ég sagði um 1. brtt. á þessu þskj. Þessi brtt. er bein afleiðing þeirrar till.

Þá er það 14. brtt. á þessu sama þskj., þess efnis, að kvenfélaginu Ósk á Ísafirði verði veittur 20.000 kr. byggingarstyrkur, eða 1/3 kostnaðar, er útborgist á tveim árum.

Það lítur út fyrir, að þetta kvenfélag eigi ekki upp á pallborðið hjá hæstv. stj. Í fyrra var sá styrkur, sem félagið nýtur til skólahalds, hækkaður hér í deildinni úr 5.000 kr. upp í 6.000 kr., en stj. lækkaði hann á ný í fjárlfrv. niður í 5000 kr. Fjvn. leggur til, að styrkurinn verði aftur hækkaður í 6.000 kr. En þessi skóli, sem hér er um að ræða, býr við húsnæðisvandræði, og á félagið mjög erfitt með að fá húsrúm við hæfi hans, auk þess sem það verður að sætta sig við að greiða mjög háa húsaleigu. Af þessum ástaeðum hefir félagið nú hafizt handa um fjársöfnun til húsbyggingar yfir skólann og sækir til Alþingis um 20.000 kr. styrk til hennar, eða 1/3 þess, sem ráðgert er, að byggingin muni kosta. Er það lægra framlag en t. d. á sínum tíma var veitt til Laugarvatnsskólans, sem var reistur með helmings framlagi frá ríkissjóði. En ég geri mér nú litlar vonir um, að félagið fái svo háan styrk, því að það virðist vera orðin venja þingsins að styðja sveitirnar meira en kaupstaðina, þegar um framkvæmdir er að ræða, og þá vanalega þannig, að sveitirnar fái í styrk til sinna framkvæmda helming af kostnaðarverðinu, en kaupstaðirnir ekki nema þriðjung.

Kvenfélagið ósk hefir haldið uppi þessum skóla á annan tug ára og aðeins notið lítilfjörlegra fjárframlaga úr ríkissjóði. Hefir skólinn jafnan verið hin mesta nytjastofnun, bæði fyrir Vestfirði og landið í heild sinni, því að hann sækja stúlkur úr öllum landsfjórðungum. Síðastl. ár voru 32 námsmeyjar í skólanum alstaðar að af landinu, enda er skólagjaldið við þennan skóla lægra en við aðra skóla, 75 kr. á mánuði fyrir hvern nemanda, og í því falið húsnæði og fæði, auk sjálfrar kennslunnar. Kvenfélagið lætur sér mjög annt um að efla þennan skóla sem mest og hefir nú aukið mjög þann kostnað, sem því stendur af honum, með því að kaupa vefstóla og annað þeim tilheyrandi. Er tilgangurinn sá, að vefnaður verði ein af höfuðnámsgreinum skólans. Vegna þessa aukna kostnaðar sótti félagið um meiri rekstrarstyrk, en fjvn. sá sér ekki fært að mæla með hærri upphæð en ég áðan nefndi.

Ég vænti þess fastlega, að hv. deild sjái nauðsyn þessa máls, og samþ. þessa till. mína. Í trausti þess sný ég mér að næstu till. minni á þessu sama þskj. (260, XX.) sem er um það, að Sigrúnu Magnúsdóttur sé veittur 2000 kr. styrkur til leiklistarnáms við leikskóla konunglega leikhússins í Kaupmannahöfn. Þessi styrkbeiðni er gamall kunningi. Sigrún sótti um styrk í þessu skyni í fyrra, en fékk synjun. Þrátt fyrir það fór hún til Hafnar og hefir nú stundað þar nám í eitt ár. Sækir hún nú um styrk að nýju með hinum beztu meðmælum kennara sinna. Hefi ég einnig átt tal við Harald Björnsson um þessa stúlku og gefur hann henni sín beztu og eindregnustu meðmæli.

Alþingi hefir ekki ósjaldan veitt leikurum styrk, til þess að frama sig erlendis og kynna sér tilhögun leikhúsa. En það hefir og auk þess beinlínis styrkt fólk til reglulegs Leiklistarnáms, t. d. Harald Björnsson og Önnu Borg við sama leikskólann og Sigrún stundar nú nám við. Hygg ég, að meira gagn sé að slíku leiknámi heldur en þegar menn skreppa snöggvast út fyrir pollinn til þess að kynna sér starfsháttu leikhúsa.

Ég vil ennfremur benda á það, að svo að segja allir styrkir, sem veittir hafa verið í þessu skyni, hafa runnið til manna úr Reykjavík, að undanteknum einum, en þess er engu minni þörf að styrkja félög úti um land, sem eigi mjög óhæga aðstöðu í þessu efni. Þessi stúlka mun hverfa heim til Ísafjarðar að afloknu námi og beita kröftum sínum þar, og er þess mikil þörf, því að leikfélagið þar á mjög erfitt uppdráttar. Aðaltill. fer fram á 2000 kr. styrk, en til vara hefi ég sett 1500 kr. og vil vona, að hv. þdm. taki vel þessari málaleitan minni.

Þá á ég brtt. XXII á sama þskj., og er hún þess efnis, að Gunnari Hallgrímssyni verði veittur styrkur til að kynna sér stjórn hljómsveita og fullkomna sig í fiðluleik erlendis. Það má segja, að á þessum manni hafi hvílt það starf að halda uppi hljómsveit og hljómleikum á Ísafirði, enda hefir hann meðmæli þaðan bæði frá söngfélaginu og lúðrasveit Ísafjarðar. Þessi maður hefir numið hjá Páli Ísólfssyni í byrjun, en síðan í Þýzkalandi, og mun honum hafa orðið mikið ágengt í listinni. Hann hefir tvö undanfarin ár sótt um styrk til þingsins, en verið synjað í bæði skiptin, þannig að ég vona, að hv. þdm. vilji sýna honum þá sanngirni að veita honum þennan 2.000 kr. styrk, sem ég hefi farið fram á, en til vara hefi ég sett 1.500 kr.

Það er nú svo með bæði þessi hjú, að þau hafa hvorug efni á að kosta sig til námsins af eigin rammleik, og bæði eiga þau fátæka aðstandendur, sem enga hjálp geta veitt þeim. Úr því að þingið hefir horfið að því ráði að veita slíka styrki sem þessa, þá álít ég að fénu verði bezt varið á þennan hátt. Það hefir allt of lengi viljað við brenna, að þeir einir hafa fengið áheyrn, sem eru úr Reykjavík, en ef þeir hafa þörf fyrir styrk, þá hafa aðrir það engu að síður, sem eru í öðrum landshlutum.

Ég sé ekki þörf á að fylgja þessum brtt. mínum með fleiri orðum, en vona, að hv. þdm. vilji sýna fulla sanngirni í þessu efni og veiti því þessa styrki.