03.04.1930
Neðri deild: 70. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2321 í B-deild Alþingistíðinda. (3108)

54. mál, lögskráning sjómanna

Ólafur Thors:

Þó að það sé að vísu svo, að í Reykjavík sé annar oddamaður sjódóms en sá, sem hefir á hendi lögskráningu, þá er það yfirleitt sami maðurinn í öllum stærstu útgerðarstöðum landsins. Það er svo í Hafnarfirði, Siglufirði, Vestmannaeyjum og Ísafirði. Hygg ég því ekki alveg ástæðulaust að óttast, að það geti alltaf komið fyrir, að skipa þurfi setudómara í sjódóm. Annars hefi ég gert grein fyrir minni skoðun og þarf ekki að fjölyrða um þetta.

Um b-lið 2. brtt., sem leggur þá kvöð á lögskráningarstjóra, að hann sinni lögskráningu alla virka daga frá kl. 9–9 og helga daga, aðra en föstudaginn langa og fyrri helgidaga stórhátíða, á milli 4 og 6, vil ég segja það, að það er ákaflega nauðsynlegt að eiga greiðan aðgang að lögskráningu. Og yfirleitt er það galli á þessu frv., að það gengur í þessum efnum beint í öfuga átt við þörfina. Þess er brýn nauðsyn að greiða götu manna að lögskráningu. Hér á landi eru miklu strangari ákvæði um þetta en í nágrannalöndunum, t. d. Englandi. Þar þurfa skipstjórar ekki annars en senda skilaboð til yfirvaldanna, að þeir óski, að lögskráningarstjóri sendi umboðsmann sinn á skipsfjöl til að skrá, og þá er það gert, jafnt á nóttu sem degi. Ég hefi ekki viljað ganga svo langt, en tel hinsvegar nauðsynlegt, að sæmilegur sé aðgangur til lögskráningar á eðlilegum vinnutíma.

Hv. frsm. veit mörgum mönnum betur, að komutími ísl. veiðiskipa í höfn er svo óreglulegur, viðdvöl svo skömm og mannaskipti svo tíð, svo að hann ætti að sjá, að það er nauðsynlegt að eiga nokkurnveginn greiðan aðgang að lögskráningu. Kvöðin, sem lögð er á þennan embættismann, er ekki sérlega þung; og í Reykjavík ætti að vera svo fyrir mælt, að lögskráningarstjóri megi setja umboðsmann í sinn stað. Þetta er nú brtt., sem ég ber fram og sjútvn. hefir tjáð sig ósamþykka. En ég verð að halda því fram eindregið, að hér sé um að ræða að leysa úr ríkri þörf, án þess að það sé lögð of þung skylda á herðar þessum mönnum.