03.04.1930
Neðri deild: 70. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2322 í B-deild Alþingistíðinda. (3109)

54. mál, lögskráning sjómanna

Magnús Torfason:

Ég skal fullkomlega játa, að það er bæði þarft og nauðsynlegt að gera það, sem hægt er, til þess að teppa ekki skip, sérstaklega veiðiskip, í förum sínum; og ég skil það svo, að síðari helmingur 2. brtt. á þskj. 317 sé gerður með það fyrir augum.

Þegar ég var skráningarstjóri á Ísafirði í gamla daga, er frá því að segja, að ég held, að það hafi alltaf verið skráð fyrir fiskiskip, þegar menn þurftu þess með. (JAJ: Alveg rétt). Það gat verið svo mikið í hættu. En vitanlega var þetta engin skylda.

Og ég veit dæmi þess, að norskir menn vildu oftar en einu sinni fá lögskráð utan skrifstofutíma, en fengu ekki, og buðu þá manninum, sem framkvæmdi verkið, sérstaka borgun. Þeir litu svo á, að þetta væri ekki skylda hans. Ég man ekki betur en þetta sé þannig í Noregi.

Nú býst ég við, að skip geti fengið sig afgreidd, þegar mikið lægi við, með þessu móti, að láta manninn, sem skráninguna framkvæmir, fá einhverja aukaþóknun. En þó verð ég að játa, að ég kann ekki við það. Það væri miklu réttara að hafa það þannig, að skylda væri að lögskrá hvenær sem er, en menn fengju borgun fyrir það úr ríkissjóði, sem vitanega fær tekjurnar fyrir það að mestu leyti. Og mér skildist á hv. flm. þessarar brtt., að þessi síður væri í Englandi. En þá vil ég geta þess, að það er dálítið öðruvísi ástatt hér í landi um greiðslur á kostnaði við störf embættismanna heldur en á Englandi. Þar er greitt það, sem til embættisins gengur, blátt áfram eftir reikningi. Þó þykist ég vita, að þegar embættismenn og fulltrúar þeirra þurfa að gera eitthvert verk, t. d. á helgum dögum, þá setji þeir upp fyrir það.

Með þessu fororði get ég fyrir mitt leyti sætt mig við till., og þá einkum ef n. legði það til, að þessu verði þannig háttað, að menn fái einhverja borgun fyrir það frá ríkinu. En eins og nú stendur á um skrifstofufé hér á landi, þá þurfa lögskráningarstjórar að borga mönnum sínum úr eigin vasa fyrir þetta starf.