03.04.1930
Neðri deild: 70. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2323 í B-deild Alþingistíðinda. (3110)

54. mál, lögskráning sjómanna

Frsm. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Ég hefi þegar gert grein fyrir því, hvers vegna ég og meiri hl. n. getur ekki fallizt á það að ákveða með lögum, hvað skrifstofur skuli vera lengi opnar; og ég hefi bent á, að þetta hefir ekki komið að sök, það ég frekast veit. Og ég hefi bent á þá gr. í frv., þar sem heimilað er undir vissum kringumstæðum að fara út án þess að láta lögskrá með þeim skilyrðum, sem rar greinir. Ég veit, að jafnvel þótt skrifstofan sé opin frá 10 árd. til 10 síðd., þá gæti þetta komið fyrir eftir sem áður. En að hafa skrifstofuna opna miklu lengur mundi þýða talsvert aukinn kostnað í mannahaldi. Og ég tel mjög rangt að rígbinda þetta eina opinbera starf svo með lögum.

Ég veit ekki vel, hvað skal segja um uppástungu hv. 2. þm. Árn., að ríkið borgaði lögskráningu utan skrifstofutíma. En því gæti ég búizt við, að útgerðarmönnum yrði ekki ljúft að taka á sig aukagjald til þess, sem lögskráir. Og ég held yfirleitt, að það sé ekki rétt af hv. flm. að leggja svo mikið kapp á þessa till., því að með ákvæði hennar mundu í raun og veru erfiðleikarnir aukast um framkvæmd starfsins frá þeirra hálfu, sem eiga að greiða fyrir lögskráningu, og mundi það valda óánægju frá beggja aðilja hálfu. Hv. þm. vitnaði í Breta. Á Bretlandi eru sérstakar stofnanir, sem hafa lögskráningu með löndum, og þar munu menn vera til skiptis eftir vöktum. Þetta kemur til af því, að í flestum brezkum höfnum verður að haga burtför skipa eftir sjávarföllum, og verða þau því að fá afgreiðslu á hvaða tíma sem er. Hér er því ekki til að dreifa. Hitt skal ég játa, að skipin fara hér oft síðla kvölds og stundum mjög snemma. En fyrir slíkum tilfellum er séð í frv., í 7. gr.