30.01.1930
Neðri deild: 9. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2330 í B-deild Alþingistíðinda. (3129)

32. mál, vegalög

Gunnar Sigurðsson:

Samgmn. hefir áður fengið ámæli fyrir afgreiðslu sína á frv. til breytinga á vegalögunum, en hv. þm. vita, að drátturinn hefir ekki verið nefndinni að kenna, heldur vandkvæðum, sem á þessu máli hafa verið. Á síðasta þingi beið n. eftir till. vegamálastjóra, en hann var erlendis þangað til fram undir þinglok. Vegamálastjóra hefir verið illa við að opna vegalögin, og þó að þetta mál hafi verið rætt, hafa brtt. jafnan fallið undanfarin ár. Eins tafði það störf nefndarinnar, að Framsóknarflokkurinn setti nefnd til athugunar á málinu, en sú n. skilaði aldrei áliti. Ég ætla ekki að lofa neinu fyrir hönd nefndarinar, en ég mun hraða afgreiðslu þessa máls eins og hægt er, enda hefi ég sjálfur ástæðu til þess fyrir mitt kjördæmi, því svo stóð á, að ég sem þm. Rang. varð fyrir því happi, að vegamálastjóri lagði til, að einn af sýsluvegum Rangæinga væri tekinn inn í lögin, og öll n. féllst á það. En hvaða till. n. gerir, get ég ekki sagt um, því að ég ræð ekki skoðunum hennar, þó að ég sé formaður. Ég hefi ekkert á móti því, að sérstakri n. verði falið þetta mál til meðferðar.