16.04.1930
Neðri deild: 84. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1109 í B-deild Alþingistíðinda. (313)

1. mál, fjárlög 1931

Haraldur Guðmundsson:

Hv. 1. þm. Skagf. veik til mín nokkrum orðum af tilefni brtt., sem ég hefi flutt við fjárl. um framlög til taugakerfa í raforkuveitum til almenningsþarfa í sveitum. Mér virtust orð hans dálítið tvíræð og ekki trútt um góðgirnina til mín, sem nú reyni að bjarga þessu áhugamáli hans, að því er hann hefir látið, frá því að daga uppi. Annars er ekki langt síðan hann sagði sjálfur, að þeir, sem væru samflm. till., ættu ekki að leggja í vana sinn að flækjast hver fyrir öðrum í umr. (MG: Ég var bara að bjóða hv. þm. velkominn í flokkinn). Óþarfi, ég geng aldrei í Íhaldsfl.

Till. mín bindur ekki þessa fjárveitingu við einn stað eða hérað, eins og till. hv. Í. þm. Skagf. Hlutfallið er heldur ekki ákveðið. Það verður að ákveðast í einu lagi fyrir héruðin. (MG: En það var boðið að endurborga, ef það reyndist óþarflega mikið). Hv. 1. þm. Skagf. hefir ekkert vald til að gefa slík loforð. (MG: Það er skrítið).

Til viðbótar því, sem ég sagði í fyrri ræðu minni, get ég nú minnzt á þær upplýsingar, sem finna má á þskj. 558. Þar liggur fyrir bráðabirgðaskýrsla um rannsóknir á raforkuveitum utan kaupstaða. Þessi skýrsla er samin af n. kunnáttumanna, sem stj. skipaði til þess að gera undirbúningsrannsóknir. Það eru verkfræðingarnir Geir G. Zoëga, Steingr. Jónsson og Jakob Gíslason. Þessir menn komust að þeirri niðurstöðu, sem hér segir :

„Vér álítum ekki enn fengna þá rannsókn og athugun þessara mála, sem grundvallarlöggjöf megi byggja á. Fyrir því teljum vér ekki ákjósanlegt, að afgreidd verði lög um þessi atriði nú á þessu þingi, en væntum, að fyrir næsta þing verði þau skilyrði fyrir hendi, að unnt yrði að gera ákveðnar tillögur um raforkulöggjöf.

En svo bæta þeir við:

„Ef áhugi er fyrir því, að til byrjunarframkvæmda komi um slíkar raforkuveitur þegar á næstu árum, væri æskilegt, að Alþingi nú þegar tæki upp í fjárlög árlega fjárveitingu í þessu augnamiði“.

Væri þetta fé nú veitt í þessum fjárl., yrði það fyrir hendi, ef þingið 1931 setur lög um þetta efni. Annars get ég vísað til þskj. 558 um nánari grg.

Mér heyrðist hv. 1. þm. Skagf. vera að bjóða mig velkominn í Íhaldsflokkinn áðan. (SE: Það er varasamt að nefna Íhaldsflokk lengur hér; forseti getur ekki látið það viðgangast. — ÓTh: Hæstv. forseti skal fá að gefa ótvíræðan úrskurð um það. Hann skal hringja í hvert sinn, sem nefndur er Íhaldsflokkur. — Forseti hringir. — ÓT: Ég leyfi mér að þakka hæstv. forseta). Ég leyfi mér að þakka hæstv. forseta fyrir að síða hv. 2. þm. G.-K., þó að það sé ekki fljótgert. „Illt er að kenna göldum grepp o. s. frv. að sitja rétt“.

Það er ekki hægt að banna mér að nefna nafnið Íhaldsflokkur, þá að stj., sem sá flokkur: hélt einu sinni., við í valdasessi, stjórnaði sér til ófremdar. Það er ekki hægt við því að gera, þó að minningin sé svo raunaleg, að íhaldsmennina sviði undan sínu gamla flokksnafni og skammist sín fyrir það.

Annars vildi ég, áður en ég lýk máli mínu, beina tveim fyrirspurnum til hæstv. fjmrh. Hann hefir á þessum síðustu og verstu dögum þingsins verið líkt og fló á skinni, svo að ég hefi ekki getað náð einu sinni kallfæri af honum.

Vildi ekki hæstv. forseti reyna að finna hann? (Forseti: Nei, ég sé hann ekki í stólnum. — MJ: Ég skal gæta að, hvort hann er ekki hérna í pappírskörfunni). Jæja, fyrst hann finnst ekki, vona ég, að hæstv. forsrh. skili til bróður síns í stj. þessum spurningum. Annari getur hann kannske svarað sjálfur.

Fyrst vildi ég spyrja enn einu sinni, hvort bankaeftirlitsmaðurinn, sem verið hefir og enn er, eigi að sitja framvegis í þeirri stöðu. Það er skýlaus skylda hæstv. fjmrh. að svara þessu af eða á. Hitt, sem hæstv. forsrh. getur ef til vill svarað, er, hvort satt sé það, sem menn segja, að hrossakaup séu komin á með ríkisstj. og flokki hennar annarsvegar og Íhaldsflokknum hinsvegar, um það að berja fjárl. fram óbreytt til að þóknast stj., og þóknast svo Íhaldsflokknum með því að svæfa í Ed. frv. um tóbakseinkasölu, sem það er komið til 2. umr. og gæti því auðveldlega gengið fram tímans vegna. Ég vona, að hæstv. stj. svari þessu skýlaust og afdráttarlaust. (BÁ: En benzínskatturinn?). Benzínskatturinn er nú úr sögunni, sem betur fer.

Það var annað að heyra á þeim snjöllu ræðum, sem fluttar hafa verið hér í kvöld, en að þessi hv. d. gæti unað við, að hv. Ed. ráði nú í þriðja sinn mestu um afgreiðslu fjárl. Hví þá að láta hana ráða þessu? Hv. frsm. fjvn. eyddi 3/7 hlutum ræðu sinnar til að sýna, að ekkert vit væri að taka við fjárl. eins og þau líta nú út; þau hefðu spillzt svo í hv. Ed. Ætlar hann nú að éta þetta allt ofan í sig með því að greiða atkv. með fjárl. óbreyttum, en móti öllum brtt.?