30.01.1930
Neðri deild: 9. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2333 í B-deild Alþingistíðinda. (3132)

32. mál, vegalög

Bernharð Stefánsson:

Hv. 2. þm. Rang. var að leitast við að afsaka vinnubrögð samgmn. og afgreiðslu hennar á þessu máli á síðasta þingi og vildi halda því fram, að sá dráttur, sem á því var, hefði ekki verið samgmn. að kenna. Var hann í því sambandi að minnast á nefnd, sem flokkarnir hefðu skipað til þess að athuga þessar vegamálatillögur. Ég skal ekki neita því, að í Framsóknarfl. var tiltal um að fela sérstakri nefnd í flokknum að athuga tillögurnar og mæla með þeim, sem mestar ástæður þætti til, að þingið afgreiddi. En það er spaugilegt, að hv. þm., skuli telja það hafa verið samgmn. til tafar.

Þá var hann einnig að minna á það, að vegamálastj. hefði verið fjarverandi úr bænum framan af þinginu, og þess vegna hefði samgmn. ekki getað tekið ákvarðanir í málinu fyrri en hann kom heim. Þær tillögur, sem bornar eru fram í vegamálum hér á Alþingi, stranda raunverulega alltaf á þessu sama ár eftir ár, að það er vegamálastjóri., sem virðist hafa alræðisvald í þessum málum, þó að það eigi að heita svo, að Alþingi ráði þar öllu um.

Hv. 2. þm. Rang. gat þess, að samgmn. hefði afgr. þessar vegamálatill. á þinginu í fyrra með nál. frá 7. maí. En það liggur í augum uppi, að það var sama sem að svæfa málið á því þingi, að skila því ekki úr nefnd fyrri en undir þinglok.

Ég verð að taka undir það með hv. þm. N.-Þ., að það er einkennilegt, ef einn maður, þó að hann sé sérfræðingur í vegamálum, á að taka ráðin af Alþingi um það, hvaða vegum skuli skipað í þjóðvegatölu, eins og nú virðist orðið í reyndinni. Ég sé ekki, að vegamálastjóri sé á nokkurn hátt bærari um það að dæma en þingmenn. Hann er að vísu sérfræðingur um vegagerð, og er vitanlega til þess hæfari en aðrir að ráða um það, hvernig á að vinna verkið. En um hitt, hvort t. d. að Eyjafjarðarbraut á að teljast til þjóðvega, eins og ég hefi flutt frv. um, er vegamálastjóri ekkert færari um að dæma en t. d. hv. þm. Barð. eða hver annar þm. Það er langt síðan þessi braut var byggð, að ráðum sérfræðinga, en það þarf enga sérþekkingu til að ákveða, hvort brautin skuli vera þjóðvegur eða ekki; það er eingöngu fjárhagsatriði, sem Alþingi er fullkomlega fært um að ráða fram úr.

Það er rétt að hv. samgmn. skilaði að lokum nál. En hvernig var það svo? Þar var ekkert tillit tekið til þeirra atriða, sem fyrst átti að leiðrétta í vegalögunum samkvæmt því, sem til var ætlazt af þinginu 1923. Á því þingi var ákveðið, að vegalögin yrðu endurskoðuð með það fyrir augum, að allar flutningabrautir yrðu teknar í tölu þjóðvega. Þetta var svo framkvæmt á þinginu 1924, þannig að þá voru allar flutningabrautir gerðar að þjóðvegum, nema tvær, sem skildar voru eftir, en það voru Eyjafjarðarbraut og partur af Borgarfjarðarbraut. Ég verð að líta svo á, að þetta hafi verið fyrir gáleysi; að minnsta kosti get ég fullyrt, að sá ráðh., sem lagði vegalagafrv. fyrir þingið 1924, fylgdi því aftur síðar, að þessar brautir yrðu teknar í þjóðvegatölu, og var svo að skilja á honum, að vegna gáleysis stjórnarinnar hefðu þær ekki verið teknar með þegar frv. var samið. En vegamálastj. hafði undirbúið málið og gengið þannig frá því, að þær vantaði í frv.

En hv. samgmn. datt ekki í hug að taka til greina þessa sjálfsögðu leiðréttingu á vegalögunum. Af þessum ástæðum þykir mér ekki öruggt um forsvaranlega afgr. málsins, ef samgmn. fær það til meðferðar, og álít því, að vel gæti komið til mála að skipa sérstaka nefnd til að fjalla um það. En telji hæstv. forseti, að það komi í bága við þingsköp eða viðtekna þingvenju, verð ég auðvitað að beygja mig fyrir áliti hans.

Ég get viðurkennt það, sem hv. þm. N.-Ísf. sagði, að ekki sé hægt að taka allar kröfur til greina, en á hinn bóginn er það augljóst, að ef starfsaðferð hv. samgmn. hefði verið fylgt frá upphafi, um að taka engar kröfur til greina, þá væri enginn þjóðvegur til í landinu enn þann dag í dag.