30.01.1930
Neðri deild: 9. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2335 í B-deild Alþingistíðinda. (3134)

32. mál, vegalög

Gunnar Sigurðsson:

Ég þarf ekki miklu að svara þeim þremur hv. þdm., sem hafa fundið að vinnubrögðum samgmn.í þessum málum á síðasta þingi. Hv. 2. þm. Eyf. svaraði sér að miklu leyti sjálfur, þegar hann gat þess, að vegamálastjóri hefði ekki verið viðlátinn hér í bænum framan af þinginu í fyrra, enda hefir það verið viðurkennt: að nefndin gæti alls ekki gengið framhjá því, að leita álits hans og umsagnar í svo stóru máli, og þar sem svo margar brtt. lágu fyrir þinginu í vegamálunum. Ég hefi aldrei sagt, að vegamálastjóri ætti að vera einráður um það, hvaða vegir væru teknir í þjóðvegakerfið, heldur að hann væri þessum málum kunnugastur, og þess vegna yrði þingið að byggja á till. hans.

Hv. þm. N.-Þ. taldi, að 42 þingmenn væru hæfari til þess að ráða þessum málum heldur en vegamálastjóri einn. En hvernig fer það, þegar hver einstakur af þessum 42 þm. otar sínum tota og berst aðeins fyrir sínum vegi, en gegn öllum kröfum hinna? Þá kemst vitanlega ekkert fram.

Ég vil endurtaka það, sem ég sagði áður, að ég álít, að þingið eigi að taka þessar kröfur til greina smátt og smátt og fullkomna vegakerfið eftir því sem efnin leyfa; þingmenn hljóta að sjá, að það er ekki hægt að fullnægja öllum þeirra kröfum í einu í vegamálunum, og þær fást ekki samþykktar.

Það hefir komið fram uppástunga um að vísa þessum málum til sérstakrar n. Það er fjarri því, að mig langi til að fjalla um þau í samgmn., ef hv. þdm. treysta annari n. betur til þess að greiða fram úr þessum málum. Ef það telst að vera brot á þingsköpum, að áliti hæstv. forseta, þá er til önnur leið, sem einn þingflokkur hafði áður reynt, en hún er sú, að flokkarnir láti undirnefndir athuga vegamálatillögurnar, og gætu þær síðan borið ráð sín saman um, hvað helzt ætti að taka til greina.

Það nær ekki nokkurri átt að ásaka samgmn. þessarar deildar um, að þessi mál náðu ekki fram að ganga á síðasta þingi. N. áleit hyggilegt að bíða eftir áliti vegamálastjóra, og auk þess stóð líka á tillögunni frá vegamálanefnd þess flokks, sem hv. þm. N.-Þ. átti sæti í. Annars er öllum hv. þdm. það kunnugt, að vegaumbætur hafa alltaf verið mín áhugamál, svo sem fjárhagurinn framast leyfir.