30.01.1930
Neðri deild: 9. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2336 í B-deild Alþingistíðinda. (3135)

32. mál, vegalög

Hákon Kristófersson:

Ég sé ekki ástæðu til þess að vera margorður um það, þó að n. sú, sem ég á sæti í, hafi orðið fyrir óverðskulduðum ámælum frá ýmsum hv. þdm. fyrir að afgreiða eigi í tæka tíð álit sitt um vegamálin á síðasta þingi. Og þó að það hefði verið afgreitt fyrr, þá voru till. svo margar og á svo mismunandi rökum reistar, að ég fyrir mitt leyti taldi mig ekki færan til að skera úr því, hverjar af þeim ættu mestan rétt á sér. Ég lít svo á að vegamálastjóri sé færastur að skera úr því, hvaða afstöðu þingið á að taka gagnvart hinum einstöku till. í vegamálunum og að einstakir þm. geti síður um það dæmt Ég er fullkomlega sannfærður um það, að það á betur við, að vegamálastjóri skeri úr þessum málum heldur en að þm. séu að teygja um þau lopann sín á milli. Hann er eini maðurinn, sem hefir langmestan kunnugleika á þessum málum á landi hér, að svo miklu leyti sem kunnugleika eins manns getur verið til að dreifa. Það er óheppileg aðferð, sem þingmenn nota oft við afgreiðslu fjárlaga og beitt var á síðasta þingi, þegar þeir lýsa yfir, að þeir taki aftur brtt. sínar um fjárframlög til vega o. fl. í fullu trausti til þess, að stj. láti framkvæma þær, þó að ekkert fé sé til þeirra veitt. Og hitt er mér óskiljanlegt, að hv. þdm. geti með rökum talið vegamálastj. hlutdrægan, eða láð samgmn., þó að hún teldi það þýðingarmikið atriði að fá tillögur hans í þessum málum. Ég býst við, að hv. form. n. hafi fullkomlega gert grein fyrir þeim ástæðum hennar, að brtt. voru svo margar, að hún taldi ófært að samþykkja þær allar. (GunnS: Það er alveg rétt). Það má vitanlega alltaf um það deila, hvort vinnubrögð samgmn. hafi verið óheppileg eða ekki. En um leið og henni er ámælt í þeim efnum, þá færi betur á því, að þeir hv. þdm., sem ámælin flytja, hefðu hreinan skjöld í þeim nefndum, sem þeir starfa í. Ég meina þetta ekki sérstaklega til hv. 2. þm. Eyf. En mér er kunnugt um, að ýmsar nefndir hafa tafið fyrir málum af miður góðum ástæðum.

Mér er óskiljanlegt, að hv. þdm. geti hugkvæmzt, að við hv. þm. N.-Ísf., sem báðir eigum sæti í samgmn. og höfum flutt margar brtt. í vegamálunum, höfum að ástæðulausu hikað við að framfylgja þeim.

Ég vil taka í sama streng og hv. form. samgmn., að ég vil krefjast þess, að það sé borið undir atkv. hv. þd., hvort slík mál sem þessi verði tekin af samgmn. Ef meiri hl. þd. er því fylgjandi, þá sættum við okkur við þann úrskurð, en það er ekki nema eðlilegt, að við viljum fá það hreint út. Annars er það einkennilegt, að þessar aðfinnslur til samgmn. koma allar frá einum og sama þingflokki.

Ég endurtek það, að þessi mál eru betur komin í höndum vegamálastj., sem er sérfræðingur, meðan þingmenn geta treyst honum til að vera óhlutdrægur í sínum tillögum. Reiptog þingmanna er miklu óheppilegra og vekur meiri óánægju.

Ég hefi heyrt því haldið fram á þingmálafundi af merkum manni, að það væri um að gera fyrir þingmenn að ryðjast á garðann, þegar á hann væri gefið, og talið, að þeir þingmenn, sem ekki kæmust að jötunni, væru óhæfir til þingsetu. Ég lít svo á, að þar sem nauðsynin er mest, þar eigi verklegar framkvæmdir að sitja fyrir. Ég tek það hinsvegar ekki illa upp, þó að hv. þm. helli úr skálum reiði sinnar yfir samgmn., en vil skora á hv. þdm. að skipa nýja nefnd í þessi mál, ef þeir telja það illa komið í höndum núverandi samgmn. En þó ég segi þetta, vil ég þó taka það fram, að ég býst ekki við, að flokkarnir hver fyrir sig mundu sjá ástæðu til að skipta um menn, og mætti því svo fara, að þó ný kosning færi fram, yrði það endurkosning sömu manna, sem væri þá sama sem traust á þeim.

Hverjar till. ég mun gera áður en þetta mál verður afgr. úr deildinni, vil ég ekkert segja að svo komnu máli. Og hvað umr. snertir, er hér hafa fram farið í dag, þykir mér næsta ósennilegt, að valdi verulegum breytingum á afstöðu minni til þessa máls.