16.04.1930
Neðri deild: 84. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1111 í B-deild Alþingistíðinda. (315)

1. mál, fjárlög 1931

Sigurður Eggerz:

Áður en ég vík að aðalræðuefni mínu, vildi ég leyfa mér að bera fram eina fyrirspurn til hv. þm. Ísaf. Það hefir heyrzt hér síðustu dagana, að jafnaðarmenn hafa gerzt allharðorðir í garð stj., og ef nokkuð má marka umr., skyldi maður ætla, að hin þinglega aðstaða stj. væri mjög að veikjast. Ég vil nú spyrja hv. þm. Ísaf., hvort hann og flokksmenn hans mundu greiða atkv. með vantraustsyfirlýsing á stj., ef við sjálfstæðismenn kæmum fram með slíka yfirlýsing. Mér heyrðist á jafnaðarmönnum, að þeir beri engan góðvildarhug til stj., svo að ef þeim er alvara, ættu þeir að styrkja okkur til að fá samþ. vantraust. Ég veit af manni, sem er reiðubúinn til að bera það fram, ef hann fær styrk.

Ég get tekið í líkan streng og aðrir með það, að þar sem svo er ákveðið, að fjárl. skuli lögð fyrir þessa d., þýðir það, að þungamiðja fjármálanna skuli vera hér, en nú er ekki hægt að neita því, að þær venjur, sem skapazt hafa, sýna, að þungamiðjan hefir færzt til hv. Ed. Hv. frsm. sagði, að þetta ætti ekki að vera svo, en í þetta sinn vildi fjvn. verða við því að láta Ed. ráða. En við vitum svo sem af hverju valdið á að vera hjá Ed. Menn er farið að langa heim. Það er þess vegna hætt við því, að þetta endurtaki sig á hverju þingi.

Ef það á að verða niðurstaðan að fella allar till., sem hér eru til umr., skal ég játa, að undarlegt er að vera að halda uppi löngum umr. til að mæla með till., sem er fyrirfram vitað, að ekki verða samþ. En ég get ekki séð með vissu fyrr en við atkvgr., hvort tilætlunin er að láta Ed. í hendur valdið í þessum efnum.

Ég flyt hér eina brtt. á þskj. 570, þess efnis, að Stefáni frá Hvítadal verði veittar 2.000 kr. Í 3 ár hefi ég borið samskonar till. fram, og hv. Nd. á heiður skilið fyrir að hafa jafnan samþ. þær með miklum þorra atkv., en Ed. hefir varið örðugri viðfangs og lækkað upphæðina niður í 1.000 krónur. Þó hefir hún nú getað fallizt á 1.200 kr. Mér þykir illa farið, að hv. Ed. skuli ekki geta fallizt á till. mína. Davíð Stefánsson segir einhversstaðar, að „fáir njóta eldanna, sem fyrstir kveikja þá“, en því verður ekki neitað, að það eru skáldin og listamennirnir, sem kveikja þá andlegu elda, og af þeim eldum leggur birtu og yl, sem hefir miklu meiri þýðingu fyrir þjóðirnar en menn gera sér grein fyrir. Og vissulega ann okkar þjóð sínum skáldum og listamönnum og finnur ylinn, sem leggur frá starfi þeirra. Þegar minnzt er látinna listamanna, viðurkenna allir, hve illa hafi verið farið með þá. Samt er eins og menn gleymi því, að sýna þessum mönnum þann sóma, sem þeim ber, í lifanda lífi. Og það er sannarlega svo með Stefán frá Hvítadal, sem er eitt af okkar ágætustu skáldum, að hann hefir fundið lítið til þeirrar hlýju, sem samúðin og skilningurinn veitir. Hann hefir orðið að sitja í kulda fátæktarinnar alla tíð. Ég vona því fastlega, að hv. Nd. sýni sama skilninginn nú og áður og samþ. þessa brtt.

Þá ætla ég að víkja örfáum orðum að ræðu hv. þm. N.-Þ. Hv. þm. sagði réttilega, að ég hefði verið því fylgjandi að setja 5 ára ákvæðið í stjórnarskrána.

Þá talaði hv. þm. um sambandslögin og lagði áherzlu á sína gömlu aðstöðu til þeirra. Hann var á sínum tíma á móti sambandslögunum, vegna galla á 6. og 7. gr. þeirra. En allir þessir gallar, sem hv. þm. N.-Þ. og hv. 2. þm. Árn. sáu, voru líka séðir af öðrum þm., sem samt samþ. lögin, af því að hinn mikli kostur var í 18. gr. þeirra, nefnilega ákvæðið um uppsögn laganna. Þar er þjóðinni gefinn kostur að losa sig við öll bönd. Þó að mér væru ljósir gallarnir á 6. og 7. gr. og legði áherzlu á, hversu miklir þeir væru, er ég sannfærður um, að rétt var að taka sambandslögunum á sínum tíma vegna uppsagnarákvæðisins. Þar var okkur gefinn lykillinn að fullkomnu sjálfstæði. Ég held því, að ef sambandslögin hefðu ekki verið samþ., værum við styttra komnir áleiðis ert við erum nú. Út af því, sem hv. þm. N.-Þ. sagði um að hægt hefði verið að ná meiru 1918 en náð var, — hv. þm. bar fyrir sig Ólaf prófessor Lárusson, — vil ég draga það mjög í vafa og fullyrða, að ég hafði meiri tök á að vita hverju hægt var að ná þá en Ólafur Lárusson, af því að ég var í stj. og átti oft tal við dönsku samningamennina. Ég minnist þess t. d., að einn dag kom formaðurinn, Hage til mín og lýsti kvíða sínum yfir því, að allt þeirra starf yrði til einskis, af því að svo langt væri gengið af Íslendinga hálfu, að Danir myndu alls ekki geta við það unað. Hitt er líka vitanlegt, að miklar tilraunir voru gerðar til að fá frestinn styttan, og þykist ég hafa átt fullan þátt í þeim tilraunum.

Mér skildist hv. þm. ekki vilja gera neinn mun á endurskoðun sambandslaganna og uppsögn. Þar er þó mikill munur á. Það þarf að biðja um endurskoðun til þess að uppsögn geti farið fram 3 mánuðum á eftir. En endurskoðun þarf ekki að leiða til uppsagnar. Þess vegna var það, þegar í Tímanum birtust greinar um, að fram hefði komið vilji um endurskoðun, en ekki uppsögn, og erlend blöð höfðu þetta eftir hæstv. forsrh., að ég spurði hæstv. ráðh., hverju þetta sætti, en hann svaraði, að blöðin hefðu haft rangt eftir sér. Að öðru leyti vona ég, að við þurfum ekki að deila um sjálfstæðismálið, en ég verð að játa, að ég tók mér nærri, að þessi aths. skyldi falla frá hv. þm. um endurskoðunina.

Þó að ég hafi sagt, að ég áliti rétt, að sambandslögin voru samþ., má hv. þm. N.-Þ. ekki skoða það svo, að ég sé að halda eldhúsdagsræðu yfir honum fyrir að vera á móti þeim. Það var til að undirstrika gallana á lögunum, að hann og hv. 2. þm. Árn. voru á móti þeim. Og þeir litir verða ekki málaðir of svartir, til þess að þjóðinni skiljist hver er hennar skylda, og greiði atkv. samkv. því á sínum tíma.

Að lokum vil ég enn einu sinni taka það fram, að ég vona, að hv. þm. N.-Þ. og ég getum jafnan staðið saman um niðurstöðuna í þessu máli.