03.04.1930
Neðri deild: 70. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2355 í B-deild Alþingistíðinda. (3156)

32. mál, vegalög

Ingólfur Bjarnarson:

Ég á hér brtt. við vegalögin, á þskj. 141, um að flytja þjóðveginn í kringum Tjörnes, sem nú er ákveðinn yfir Tunguheiði. Meiri hl. samgmn. hefir ekki viljað mæla með þessari brtt.; hinsvegar lýsir vegamálastjóri því yfir mjög ákveðið í áliti sínu, að þennan þjóðveg yfir Tunguheiði verði að flytja þaðan, vegna þess að þar verði aldrei lagður akvegur. En hann telur hinsvegar, að æskilegt væri, að hann fengi sjálfur tækifæri til þess að athuga þær tvær leiðir, sem til mála gæti komið að færa þennan veg á, sem sé, hvort ætti að láta hann liggja kringum Tjörnes, eins og ég legg til, eða hann sé lagður yfir svonefnda Reykjaheiði. Hv. frsm. samgmn. gat þó um það, að vegamálastjóri væri hlynntur brtt. minni og hann gerði ráð fyrir, að eftir að vegamálastjóri hefði fengið tækifæri til að líta á þessa vegi, myndi hann fallast á það að láta veginn liggja kringum Tjörnes.

Nú vil ég geta þess, að þessar leiðir báðar hafa nú þegar verið athugaðar af aðstoðarverkfræðingi vegamálastjóra, a. m. k. lauslega, og auk þess hefir Jóhannes Guðmundsson vegastjóri á Húsavík, sem haft hefir með höndum umsjón með vegagerðinni yfir Vaðlaheiði, athugað Tjörnesleiðina, og það liggur fyrir skýrsla frá honum, allgreinileg, um þá leið. Þessi maður hefir staðið fyrir vegagerðum vegamálastjóra, og er því sjálfsagt sæmilega fær að dæma um þessu hluti og auk þess nákunnugur öllum staðháttum þarna; hefi ég hér skýrslu hans, sem ég held að vegamálastjóri hafi líka fengið. Skýrir hann svo frá, að þessi leið kringum Tjörnes, sem enn er óveguð og liggur öll í byggð meðfram sjó að Lóni í Kelduhverfi, sé um 37 km., en frá Lóni liggur vegurinn austur að Jökulsá og er, mest frá náttúrunnar hendi, fær bifreiðum.

Af skýrslu Jóhannesar má sjá, að vegarstæðið er sæmilegt, og hann telur, að allur kostnaður við vegagerðina muni verða allt að 100 þús. kr., en getur þess þó, að það megi sennilega gera leiðina akfæra með 20 þús. kr. minna tillagi, þ. e. a. s. það má nota vissa kafla án þess að nokkuð sé við þá gert í bili.

Þetta er um ytri leiðina að segja, kringum Tjörnes, en um hina leiðina, sem vegamálastjóri virðist telja, að geti komið til mála sem þjóðvegur, skal þess getið, að hún liggur sunnan undir Húsavíkurfjalli og austur hálendisflatneskjuna fyrir framan Kelduhverfi, austur að Jökulsárbrú. Þessi leið er víst ekki mæld, en talið er, að hún muni vera um 50 km., frá Húsavík að Jökulsárbrú. Hún liggur öll um óbyggðir og snjóþunga hálendisflatneskju, sem sjálfsagt mundi ekki verða fær vögnum og bifreiðum nema um hásumarið.

Í tilefni af því, sem að framan er sagt, vildi ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp kafla úr skýrslu Jóhannesar Guðmundssonar. Þar segir svo:

„Vil ég benda á örfá atriði í sambandi við veg yfir Reykjaheiði. Vegalengdin hefir ekki verið mæld, en mun vera nálægt 50 km. (frá Húsavík að Ásbyrgi). Til þess að komast upp á heiðina (Grjótháls), verður að gera alldýran veg þangað upp, hve dýran get ég ekki sagt, því að um fleiri en eina leið er að velja og vegalengdin ómæld. Fara þarf yfir gjár og gjáveggi og þarf þar að gera allstórar uppfyllingar, til þess að fært sé með bifreiðar. Möl til að bera í móana austan við Lönguhlíð og austur Hálsinn, mun lítt eða ekki fáanleg. Verður því vegur þessi ófær í úrkomutíð á sumrin og tæpast fær nema 2–2½ mánuð sumar hvert til jafnaðar.

Þá vil ég taka það fram, að ég álít vegarbót þessa ekki hafa „praktiska“ þýðingu fyrir aðra en þá, sem ferðast vilja í Ásbyrgi á sumrin, og þá einstöku langferðamenn“.

Þetta segir nú vegastjórinn um þessa leið, sem hann hefir hinsvegar ekki haft tækifæri til að skoða neitt nánar, mæla eða lýsa frekar. Mér sýnist nú, satt að segja, þegar því er slegið föstu, að það verði að flytja þjóðveginn burt af Tunguheiði, vegna þess að hann liggur þar um hálendi, sem er svo snjóþungt, þá muni fáum geta komið það snjallræði til hugar að flytja hann inn til hálendisins og leggja hann þar yfir heiðaland, sem heldur ekki verður akfært nema örlítinn tíma af sumrinu. Svo er og á það að líta, að sá vegur liggur allur um óbyggðir, fyrir innan sveitirnar, enda er það mála sannast, að ég veit ekki til, að nokkur hafi haldið því fram, að þarna ætti að koma þjóðvegarleið. Ég veit að vísu, að talað hefir verið um það, að fá gert við þennan heiðarveg, til að fá hann bílfæran, en aðeins átt við að fá hann færan til umferðar á sumrum, en ekki hitt, að nokkur hafi farið fram á að gera hann að þjóðvegi. Hann er mest brúkaður yfir sumarið af skemmtiferðamönnum, en það er nú svo hjá okkur, að það verða venjulega hestarnir, sem hentast er að nota þarna, því oftast er svo farið frá Ásbyrgi fram heiðar til Mývatnssveitar. Svo verð ég að segja það líka, að enn síður er ástæða til að láta sér koma til hugar að hafa þjóðveg þarna uppi á fjöllum, þegar um jafngóða leið getur verið að ræða og að fara kringum Tjörnes, þar sem vegurinn liggur meðfram sjó og er að því leyti langsnjóléttasta leiðin, sem hægt er að fá. Liggur þar á ofan gegnum byggð, sem er allfjölbyggð á nokkrum hluta, þó að vísu sé strjálbyggt norðan á nesinu. Enda hefir reynslan sýnt, að þetta er eina leiðin, sem veitir tryggt samband milli norður- og suðursýslnanna, því að þótt póstvegurinn liggi yfir Tunguheiði, þá er það alvanalegt á vetrum, að farið er kringum Tjörnes, bæði af póstum og ferðamönnum öðrum. Reykjaheiði fara menn stundum í einsýnu og björtu veðri. Yfir Tunguheiði er miklu styttra milli byggða, en sé ófærð eða illviðri, verður að fara kringum Tjörnes; þar er færðin ætíð stórum betri og um byggð að fara.

Ég sé nú ekki ástæðu til að fjölyrða svo mjög um þetta, en lít svo á, að þetta sé svo alveg sjálfsagt mál, að vegurinn verði fluttur og ákveðinn kringum Tjörnes, að engin nauðsyn sé til að fresta málinu til þess að útvega frekari upplýsingar, því að þótt vegamálastjóri fyrir sitt leyti teldi það ef til vill hentugra og hann væri ánægðari með að sjá þetta með sínum eigin augum, þá er þetta svo ljóst mál öllum kunnugum, að ég held, að það sé þarflaust að bíða með ákvörðun um þetta. Enda mun það líka vera svo, eftir því sem hv. frsm. samgmn. gat um, að vegamálastjóri hefir einmitt búizt við því, að þetta myndi verða eina úrræðið. Vonast ég því til, að hv. samgmn. geti fallizt á, að rétt sé að ákveða veginn nú þegar og sömuleiðis hv. þd.