03.04.1930
Neðri deild: 70. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2363 í B-deild Alþingistíðinda. (3160)

32. mál, vegalög

Hannes Jónsson:

Á þingi 1924 var ákveðið, hvar veg skyldi leggja um Húnavatnssýslu. Þá var um tvær leiðir að gera, Vesturhóp og Víðidalinn, og var ákveðið, að hann skyldi liggja um Víðidalinn.

Þegar þessi vegarlagning hafði verið ákveðin, þótti þinginu, að Vesturhóp hefði orðið mjög útundan og leyfði því sérstaka fjárveitingu þangað. Það má því segja, að þingið sé að nokkru leyti búið að taka þennan veg, sem þarna var lagður, upp í tölu þjóðvega, þó að það sé ekki formlega. Mér virðist alveg rétt, fyrst ríkið lét leggja þennan veg að miklu leyti, að það haldi honum við. Ég vona að minnsta kosti, að þessi vegur verði ekki settur hjá, ef á að fara að taka marga vegi inn í vegalögin.

Þá hefi ég flutt brtt. fyrir tilmæli hv. þm. A.-Húnv., og er ekki þörf að hafa langar umræður um hana. Það er öllum kunnugt, að nú á að fara að byggja myndarlega höfn á Skagaströnd, sem hlýtur að hafa það í för með sér, að Blönduós leggst meira og minna niður sem verzlunarstaður, en eykst á Skagaströnd. Þess vegna er þörf á góðum vegi þangað. Þessi vegalengd, sem hér ræðir um, er eitthvað um 20 km., en mikið af þeirri leið er sléttir melar, svo að ekki þarf að leggja veg alstaðar, enda þótt þurfi að gera veginn svo góðan, að vel sé fært fyrir bíla.

Mér láðist að taka það fram um Vesturhópsveginn að hann er 10 km. langur, en búið að leggja helminginn, svo að eftir eru aðeins 5 km., eða 6 km. í mesta lagi.