03.04.1930
Neðri deild: 70. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2364 í B-deild Alþingistíðinda. (3163)

32. mál, vegalög

Sveinn Ólafsson:

Ég vildi segja hér nokkur orð til viðbótar því, er hv. samflm. minn að brtt. á þskj. 44 hefir tekið fram. Ég verð að taka undir með honum um það, að hv. samgmn. hefir verið heldur naum á fiskstykkjunum, þegar hún lagði til, að felldur yrði niður meginhluti þessa vegar, sem við komum með brtt. um, og aðeins lítill spotti tekinn í þjóðvegatölu, þ. e. frá Eyvindarárbrú til Eiða. Þessi vegarspotti er nú sýsluvegur og er þegar búið að gera hann akfæran. Einnig nýtur hann og hefir notið styrks úr ríkissjóði vegna skólans á Eiðum. Ég met tillögu hv. samgmn. því að engu nýta. Það er einmitt hinn kafli vegarins, frá Eiðum út að sjónum, sem máli skiptir að fá í þjóðvega, en á móti þeim kafla leggur hv. nefnd algerlega. Ég vil ekki trúa því, sem vegamálastjóri segir í bréfi sínu til hv. samgmn., að vegur þessi þurfi að kosta nálægt 200 þús. kr. Það er ekki heldur rétt, að þarna sé vont vegarstæði. Mikið af leiðinni er auðfarið, og allt eftir byggð og sléttlendi. Þykir mér harla ósennilegt, að vegur um þessar slóðir þurfi að kosta á 8. þús. kr. á hvern km.

Svo var ráð fyrir gert, að Óshöfn við Héraðsflóa yrði endastöð þessa vegar. Er það álit margra manna, einkum ókunnugra, að þessi höfn sé að engu nýt, en það álit er að minni hyggju byggt á hinum mesta misskilningi. Höfn þessi er eins góð og betri en margar hafnir, sem mjög mikið eru notaðar. Hún er t. d. engu lakari en Blönduós og betri en Hornafjörður eða Vík í Mýrdal. En auðvitað verður höfnin aldrei almennt notuð fyrr en einhver mannvirki eru þar komin, og mun ég víkja að því síðar. Höfnin sjálf er örugg og góð, djúpt uppistöðulón í Selfljótsósi, en sá er ljóður á, að sandrif eru utan við hana, svo að ekki verður fleytt þangað inn skipum, nema þegar sjór er brimlaus og kyrr. Ég athugaði þessa höfn fyrir nokkrum árum, mældi dýpi og leit eftir annari aðstöðu fyrir mann, sem hafði í hyggju að setja upp verzlun í Unaósi. Mér virtust skilyrðin mörg hagstæð til hafnargerðar, jafnvel með eigi miklum mannvirkjum. — Annars er það kunnugt öllum sögufróðum mönnum, að einn af þeim kunnari landnámsmönnum, Uni danski, valdi sér þessa höfn til lendingar á landnámsöld, og enginn efast um, að hann hafi kunnað að velja sér lendingarstaðinn. Enda er þetta áreiðanlega bezta höfnin þarna á löngu svæði, eða hefir verið þá, því að sennilega hefir sandrifið fyrir hafnarmynninu að nokkru myndast síðar.

Ég verð að taka undir það með hv. 1. þm. N.-M., að þegar snjóar banna flutninga um Fagradal eða yfir fjallgarðana, sem aðgreina Fljótsdalshérað og firðina, þá er ekki um aðra höfn en þessa að gera fyrir Héraðsbúa. Og þegar vegur hefir verið gerður út eftir Héraðinu, hlýtur að reka að því, að höfnin verði lagfærð. Ég er að vísu ekki hafnarverkfræðingur, en ég hygg, að ekki muni þurfa annað en að stokka fljótið fram á svo sem ½ km. vegalengd, til þess að þarna verði ágæt höfn.

Þetta vildi ég sagt hafa til frekari skýringar á þessari brtt., sem vegna ókunnugleika þingmanna hefir verið misskilin svo freklega. Vænti ég, að hv. þd. lofi henni að fljóta með, ef ekki verða allar breytingar á vegal. skornar niður. En ég gef ekkert fyrir brtt. í þeirri mynd, sem hún hefir fengið hjá hv. samgmn.