03.04.1930
Neðri deild: 70. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2366 í B-deild Alþingistíðinda. (3164)

32. mál, vegalög

Pétur Ottesen:

Mér sýnist, að allar líkur séu á því, að nú verði samþ. einhverjar breytingar á vegal., og hefi ég því borið fram eina viðaukatill., um að vegurinn frá Akranesi vestan Hafnarfjalls að Hvítárbrú verði tekinn í þjóðvegatölu: Ég hefi aflað mér upplýsinga um lengd þessa vegar, auk þess sem ég er kunnugur á þeim slóðum, sem hann á að liggja og liggur um. Vegurinn er rúml. 48 km., og þar af er búið að leggja um 20 km., en 9 km. er sjálfgerður vegur frá náttúrunnar hendi. Þá eru eftir 19.3 km., sem skv. þessu þyrfti að gera nýjan veg. — Um veginn að öðru leyti er það að segja, að hann er ákaflega nauðsynlegur til að tengja saman efri og neðri hluta Borgarfjarðarsýslu. Auk þess má búast við, að þessi vegur verði mjög bráðlega einn liðurinn í samgöngukerfinu milli Norðurlands og Suðurlands. Það er nú þegar komið í ljós, að sú leið mun liggja framhjá Borgarnesi að miklu leyti, og suður á bóginn. Ennþá er mest farið yfir Geldingadraga og síðan á ferju yfir Hvalfjörð. En Geldingadragi er svo snjóþungur, að hann getur aldrei orðið nema sumarleið. En þar sem þessi vegur, sem ég flyt hér brtt. um, kemur til með að liggja er svo snjólétt, að sá vegur verður alltaf fær, meðan vegir í byggð eru yfirleitt færir að vetrarlagi. — Enn er ekki hægt að segja um það til fulls, hvar aðalumferðin milli Norður- og Vesturlands annarsvegar og Reykjavíkur hinsvegar kann að liggja um á þessu svæði — hvort það verður um Akranes, þegar bætt hafa verið hafnarskilyrðin eða á ferju yfir Hvalfjörð eða inn fyrir Hvalfjörð eftir vegi, sem þar yrði lagður. En það er víst, að hvað sem þessu líður, þá mun aðalumferðin liggja þarna framhjá Hafnarfjalli og meiri hluti vegarins undir öllum kringumstæðum falla inn í samgöngukerfi, sem nú er verið að vinna að milli Norður- og Suðurlands. Ég hefi talað við vegamálastjóra um þennan veg og fengið hjá honum ýmsar upplýsingar. — Að öllu athuguðu finnst mér þessi vegur eiga eins mikinn og meiri rétt á sér í þessu efni en flestir aðrir af þeim vegum, er nú liggja fyrir till. um að taka upp í þjóðvegatölu. Margir þeir vegir, sem hér liggja fyrir brtt. um, eru algerðir innanhéraðsvegir, en þessi er þáttur í vegakerfi milli landshlutanna. Vænti ég því, að þessi vegur verði tekinn í þjóðvegatölu, svo framarlega sem Alþingi hverfur að því ráði, að gera nokkra breytingu á vegalögunum. — Um kostnaðinn af veginum vildi vegamálastjóri ekkert fullyrða að svo stöddu, en ég vænti, að hann verði ekki yfir 100 þús. kr.