03.04.1930
Neðri deild: 70. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2368 í B-deild Alþingistíðinda. (3168)

32. mál, vegalög

Magnús Guðmundsson:

Það er næstum eins og hér sé verið að ræða um fjárlög, því að ég held, að flestallir hv. þdm. eigi hér brtt. (MJ og TrÞ: Ekki allir). Hæstv. forsrh. mun ekki eiga neina, en hann hefir líka önnur ráð til að koma sínum vegum á framfæri. Þessi brtt.-fjöldi sýnir það bezt, hversu mikill áhuginn fyrir bættum samgöngum er í landinu. Nú finnst mér vert að athuga, hvað fæst með því, að vegarkafli sé tekinn upp í vegalög. Ef ég man rétt, þá er ríkissjóður aðeins skyldur að halda þjóðvegum reiðfærum, en jafnframt þessu er vonin um að fá akvegi síðar. Eins og reynslan sýnir, getur það þó dregizt mjög lengi. Þetta er því ekki alveg eins og þegar símalína er tekin í símalög, en þó líkt að því leyti, að vegurinn verður ekki lagður fyrr en fé er veitt til hans í fjárl. Ef á annað borð er farið að „opna“ vegalögin, finnst mér því, að Alþingi hafi enga ástæðu til að vera sérlega íhaldssamt í samþykkt á brtt.

Brtt. á þskj. 408, sem ég flyt hér ásamt hv. 2. þm. Skagf., er um að taka upp í þjóðvegatölu Hofsósbraut, frá Hofsósi til Hjaltadalsárbrúar, og er partur af þessum vegi nú þegar akfær. Það er áreiðanlegt, áður en langt um líður verður allur vegurinn frá Sauðárkróki til Siglufjarðar tekinn upp í vegalögin sem þjóðvegur. Þó að þetta verði ef til vill ekki gert á allra næstu árum, fara samgöngurnar til Siglufjarðar þó svo hraðvaxandi með ári hverju, að þetta getur áreiðanlega ekki beðið í áratugi. En hér er ekki farið fram á svo mikið sem þetta, heldur aðeins nokkurn kafla þessa vegar. Hér er um að ræða veg til stórs kauptúns, þar sem jafnan er mikil verzlun, þótt hún sé nú orðið ekki eins mikil og áður, meðan Hofsós var aðalverzlunarstaðurinn við Skagafjörð. En þangað sækja þó enn 3 eða 4 hreppar, sumir mjög fjölmennir. Og það er vitaskuld, að veganetið verður að ganga út frá kaupstöðunum, ef það á að koma að haldi.

Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri, í þeirri von, að umr. styttist úr þessu og senn fari að líða að atkvgr.