15.04.1930
Efri deild: 78. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2380 í B-deild Alþingistíðinda. (3184)

32. mál, vegalög

Jón Jónason:

Það er með þetta mál eins og svo mörg önnur, að lítill tími hefir unnizt til að athuga það gaumgæfilega, en þar sem þessar brtt. við vegalögin hafa legið lengi hjá hv. Nd., býst ég við, að málið hafi verið gaumgæfilega athugað þar.

Ég verð að segja það, að mér virðist sem ný stefna sé hér upp tekin, því að vaninn hefir verið sá, að ekki hafa verið teknir upp í þjóðvegatölu þeir vegir, sem liggja innan héraða, en hér er það gert víða. Mér finnst það augljóst, að ýmsir þeir vegir, sem hér er farið fram á, séu réttmætir í þjóðvegatölu, og sumstaðar liggur brýn nauðsyn fyrir hendi vegna héraðanna, að létta undir með þeim. En þetta verður að gera eftir fastri reglu og samræma þetta um land allt, og efast ég um, að það hafi tekizt með þessu frv. Hinsvegar er nú orðið svo áliðið þingsins, að ekki er nema um tvennt að ræða, annaðhvort að samþykkja frv. óbreytt eða að fella það. Það virðist mér þó tæpast hægt vegna þeirra vega, sem nauðsynlegir eru, þótt einhverjir kunni að dyljast innan um, sem síður er þörf á. Við í samgmn. höfum athugað þetta frv. í samráði við vegamálastjóra, en álit hans barst okkur ekki fyrr en við höfðum skilað nál. okkar. Því vildi ég lesa upp bréf hans:

„Með tilvísun til viðtals á fundi samgöngumálanefndar efri deildar í dag vil ég láta í té eftirgreindar upplýsingar viðvíkjandi frumvarpi til laga um breytingu á vegalögunum á þskj. 417.

Breytingar á vegalögunum eins og þær eru samþykktar af neðri deild Alþingis eru orðnar mjög víðtækar. Eru sumar þeirra, þannig, að mjög er hætt við, að fleiri komi bráðlega á eftir með engu minni sanngirniskröfur en þessar, þar eð með sumum breytingum þessum hefir að mínu áliti verið farið inn á mjög varhugaverða braut, með því að rjúfa þá meginreglu, sem undanfarið hefir verið fylgt, að eindregnir innanhéraðsvegir skuli ekki vera í tölu þjóðvega.

Vegarkaflar þessir allir eru að lengd 326 km., en lengd þjóðveganna er nú um 2.150 km. Ég geri ráð fyrir, að aukinn viðhaldskostnaður, er af þessum breytingum leiðir, muni þegar á 1. ári nema minnst 30 þús. kr., en viðhaldskostnaðurinn mun eðlilega vaxa nokkuð ört, með því að meiri kröfur verða gerðar en ef vegirnir væru í tölu sýsluvega. Fer ekki hjá því, að kostnaðurinn kemst fljótt upp í 50 þús. kr. Þó ber að geta þess, að eins og er greiðir ríkissjóður nokkuð af viðhaldskostnaði sumra þessara vega með tillagi til sýslusjóðsvega, þar sem slíkar samþykktir eru.

Fleiri nýrri kaflarnir eru enn að miklu leyti óvegaðir, samkv. lauslegri athugun rúmlega 200 km., en aðeins um 100 km. er allgóð akbraut. Á óveguðu köflunum þarf víða lítilla lagfæringa til þess að akfært verði um sumartímann, og meira verður þar naumast krafizt fyrst um sinn, en þó geri ég ráð fyrir, að á næstu 6–8 árum verði talið sanngjarnt að fullnægja kröfum um vegabætur þar, er muni kosta nálægt 700 þús. kr. Þar sem vegir þessir allir hafa verið í tölu sýsluvega, myndi samkvæmt undanfarinni venju mega vænta, að helmingur endurbótakostnaðar á þeim fengist greiddur úr ríkissjóði. Verður þá viðbótarkostnaður ríkissjóðs á þessu tímabili naumast undir 350 þús. kr. auk árlegs viðhalds.

Er því bersýnilegt, að ef frumvarp þetta á að verða að lögum, þá er enn brýnni nauðsyn en fyrr, að bifreiðaskatturinn verði hækkaður, svo að aukið framlag fáist á þann hátt til viðhaldsins“.

Svo nefnir hann hér nokkra vegi, sem hann álítur réttmætt að fella niður eins og nú standa sakir, en segir svo:

„Um Snæfellsnesbraut (brtt. á þskj. 458) hefi ég áður látið uppi álit mitt, er samhljóða tillaga lá fyrir neðri deild. Ég vil þó taka fram, að það væri í rauninni í samræmi við ýmsar tillögur, sem samþykktar hafa verið í neðri deild, að tekinn væri í tölu þjóðvega kaflinn út að Búðum. Er þessi kafli 38,6 km., og er áætlað, að kosta muni nálægt 80 þús. kr. að gera þar þær umbætur, að hann verði vel bílfær. Eru nokkrar brýr á leið þessari, sem sérstaklega hleypa fram kostnaðinum. Þessi ummæli mín ber þó ekki svo að skilja, að ég leggi með þessari breytingu, en ég vil þó láta þessa getið vegna samræmis, eða til þess að sýna eitt dæmi þeirra afleiðinga, sem búast má við af breytingum þeim, sem samþykktar voru í neðri deild Alþingis“.

Samkv. þessu er það ekki alveg nákvæmt hjá hv. þm. Snæf., að vegamálastjóri hafi verið samþykkur því, að meira en helmingur vegarins væri tekinn upp í þjóðvegatölu, heldur leggur hann beinlínis á móti mestum hluta hans.

Það, sem blasir við manni, er maður athugar gjaldaliðina, er það, að ef allir þessir kaflar verða teknir upp í þjóðvegatölu, munu útgjöldin fyrst aukast um 30 þús. kr. og síðar munu þau hækka upp í 50 þús.

Aukning á gjöldum ríkissjóðs myndi að öllum líkindum nema mikið meiru en 30 þús. kr. á ári. Svo bendir hann á, að sennilega verði varið til að gera þessa vegi vagnfæra nálægt 700 þús. kr. En hann bendir líka á það, að þar sem þessir vegir allir eða flestir hafi verið teknir í sýsluvegatölu, mundi ríkissjóður alltaf þurfa að borga helming kostnaðar, svo að raunveruleg aukning á útgjöldum ríkissjóðs er ekki nema 350 þús. kr. Ef þessir vegir verða lagðir á 8 árum, eins og hann gerir ráð fyrir, þá er árlegur útgjaldaauki um 70–80 þús. kr. Þetta út af fyrir sig er náttúrlega ekki svo ægilegt, en það má eins vel búast við því, að með þessum vegum, sem hér hafa verið nefndir, verði ekki látið staðar numið; ég þykist alveg viss um, að ýmsar aðrar sýsluvegalagningar eigi jafnan rétt á sér til að verða teknar í þjóðvegatölu, og mun þess vegna mega telja víst, að þeir sýsluvegir bætist við á næstu árum. En við þessu er kannske ekki svo mikið að segja og ég tel það gott, að sem mest verði greitt fyrir vegalagningu um héruðin., eftir því sem geta ríkissjóðs leyfir, ef við aðeins fengjum einhvern heilbrigðan tekjustofn til að mæta þessum aukna vegakostnaði og geysilega viðhaldskostnaði, sem á ríkissjóði hvílir.

Það vill nú svo vel til, að fyrir þinginu liggur frv., sem ég tel í alla staði gott; á ég þar við benzín-frv., sem myndi gefa ríkissjóði meiri tekjur án þess að auka útgjöld hans, og ef það næði fram að ganga, þá teldi ég forsvaranlegt af þinginu að samþykkja þessa vegi, þótt það dragi nokkurn dilk á eftir sér, því að þá er þó svo mikið framfaraspor stigið.

Enda þótt ég harmi það að vísu, hvert flaustur hefir orðið á þessu máli, og vil ég þar m. a. henda á það hjá hv. Nd., að hún hefir eigi getað tekið til greina brtt. frá vegamálastjóra, sem mér finnast algerlega réttmætar og sjálfsagðar, og sem allt þingið myndi fallast á, ef þær kæmu til atkv. En ég hefi þó ekki flutt brtt. í samræmi við það, af því að tíminn er orðinn svo naumur; annaðhvort verður að samþykkja þetta óbreytt, ellegar að láta frv. daga uppi. En í trausti þess, að einhver tekjustofn verði fundinn og samþ., til þess að bæta úr þessari miklu þörf veganna, verð ég fyrir mitt leyti að leggja til að þetta frv. verði samþ., a. m. k. við þessa umr., hvað sem svo verður gert við það endanlega, hvort það fer út úr d. eða ekki; það mun ég náttúrlega taka til athugunar við 3. umr. En þess vil ég láta strax getið, að þar sem margir af þessum vegum eiga fyllsta rétt til að verða teknir upp í tölu þjóðvega, þá er það mikill neyðarkostur að þurfa að fella frv.