15.04.1930
Efri deild: 78. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2385 í B-deild Alþingistíðinda. (3186)

32. mál, vegalög

Frsm. (Páll Hermannsson):

Það var réttilega tekið fram hjá hv. 6. landsk., að samgmn. hafði of lítinn tíma til að íhuga þetta frv., svo að vel hefði verið. Það er nú reyndar dálítið síðan frv. kom fram hér í d., ég hygg, að það sé nær hálfum mánuði. En það var á mesta annatímanum, þegar fjárl. voru hér, og einmitt tveir menn úr samgmn. áttu sæti í fjvn., svo að það vannst enginn tími til að athuga frv. fyrr en nú, á mánudag, en þó var það ekki nema einn fundur, sem n. hafði til að athuga það.

Ég vil geta þess, til leiðréttingar á skýrslu vegamálastjóra, sem hv. 6. landsk. las upp, að vegamálastjóri hafði gleymt að draga frá veg yfir Tunguheiði, þar sem hann talar um Tjörnesveg, svo að leiðin, sem hann gefur upp, er um 20 km. of löng. Það má líka segja, að það sé að nokkru leyti tekin upp ný stefna með þessari brtt., sem sé sú, að gera að þjóðvegum innanhéraðsvegi, sem ekki eru jafnframt í þeirri þjóðvegakeðju, sem liggja umhverfis landið. Þó er þetta ekki algerlega, það eru til dálítið líkar hliðstæður, enda bendir vegamálastjóri á það í því skjali, sem prentað er með nál. samgmn. í Nd., og nefnir hann þar til sérstaklega Hvammstangabraut og Skagafjarðarbraut, sem eru í rauninni fjölfarnar flutningabrautir, en þó ekki beinlínis liður í þessum langvegi umhverfis landið.

Þegar málið var til meðferðar í hv. Nd., þá voru það nokkrir stúfar, sérstaklega þrír vegarstúfar, sem vegamálastjóri blátt áfram lagði þá til, að teknir yrðu inn á vegalög. Ég man ekki gerla, hve langir þeir eru, en það var Kópaskersvegur, 24 km., í öðru lagi Hafnarvegur, frá Höfn í Hornafirði, sem er örstuttur, og í þriðja lagi Fljótshlíðarvegur. En þegar frv. kom til þessarar d., þá hafði vegamálastjóri áttað sig á því betur, að ekki myndi gott að spyrna á móti því, að inn kæmu nýir vegir á eftir þessum, enda hafði hann þá komizt að þeirri niðurstöðu, að rétt væri að færa sig nokkuð meira upp á skaftið, ekki beinlínis þannig, að hann teldi það í rauninni alveg rétt að taka þessa 170 km. inn í vegalögin, heldur að það mætti, eftir atvikum, teljast sæmilegt og ætti undir öllum kringumstæðum meiri rétt á sér en þeir 140 km., sem þá voru eftir.

Ég hefi nú ekki svo mikið að segja um þær brtt., sem hér liggja fyrir, en benda má þó á það, að ég ætla, að þær hafi báðar komið fram undir umr. og atkvgr. í Nd. og verið felldar þar. Hv. þm. Snæf. benti á það, að sér líkaði illa undirbúningur málsins, að það væri þingið, án þess að njóta undirbúnings stjórnar og vegamálastjóra, sem tæki málið upp. Það er nokkuð til í þessu, en það stafar af því, að enda þótt þingið hafi í nokkur ár borið fram allháar óskir um vegamálabreyt, hjá stj., og vegamálastjóri ekki tekið það til greina, né heldur stj., þá hefir þingið þess vegna að nokkru leyti spyrnt úr sér stíflunni.

Hv. þm. Snæf. gat þess, að vegamálastjóri hefði talið, að það væri máske rétt að taka upp í tölu þjóðvega leiðina frá Hjarðarfelli að Búðum, um 35 km., sem hann nefndi, og ég sé, að vegamálastjóri getur þess í skjali, sem hann hefir skrifað hingað, að hann telur þann veg eiga mikinn rétt á sér. Ég verð að lýsa yfir því fyrir mitt leyti, að ég verð að leggjast á móti þessari brtt. frá hv. þm. Snæf., vegna þess fyrst og fremst, að ég er hræddur um, að samþykkt hennar myndi verða til að eyðileggja allt málið; en hitt get ég líka sagt, að mér þykir mjög leiðinlegt að þurfa að drepa brtt. frá þessum hv. þm., leiðara en frá nokkrum öðrum, vegna þess að hv. þm. hefir víst ekki haft nein áhrif í hv. Nd. Sem þm. í einmenningskjördæmi hefir hv. þm. ekki getað haft neina samvinnu í Nd., og ég vil segja hv. þm. það, að ef hann á næsta þingi bæri fram brtt. um að taka inn í vegalög leiðina að Búðum, þá skal ég hiklaust greiða atkv. með því, þótt ég verði að þessu sinni að gera mitt til að bana þessari brtt. hans.

Um brtt. hv. 5. landsk. hefi ég ekkert annað að segja en það, að hún hefir fallið í hv. Nd., og þar sem hún er auk þess ein af þessum fjallvegaleiðum, sem ég vil láta sitja á hakanum fyrir vegum um sveitir landsins, þá mun ég greiða atkv. á móti henni.

Þótt ég telji á þessu frv. ýmsa galla, eins og á öðrum mannanna verkum, þá álít ég samt rétt að játa það ganga fram, en það getur það ekki nema með því einu móti, að þessi hv. d. samþykki það óbreytt.