15.04.1930
Efri deild: 78. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2390 í B-deild Alþingistíðinda. (3189)

32. mál, vegalög

Jónas Kristjánsson:

Hv. frsm. mælti á móti brtt. minni á þskj. 535 og færði það til, að hér væri um fjallveg að ræða. Kom mér þetta kynlega fyrir, þar sem þetta er eina leiðin fyrir Siglfirðinga til að hafa samgöngur við aðra landsmenn á landi og eina leiðin fyrir Fljótamenn til að koma vörum sínum á markað. Mér þykir þetta þeim mun kynlegra, sem hv. frsm. er mjög áfram um veginn að Óshöfn, og hefir þó það hérað annan veg, Fagradalsbrautina, til að koma frá sér afurðum sínum. En hún er mjög góður vegur. Ég á ekki von á öðru en sanngirni frá hv. frsm., og vil ég því vænta, að hann athugi málið betur og snúist síðan til fylgis við brtt. mína.