16.04.1930
Neðri deild: 84. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1117 í B-deild Alþingistíðinda. (319)

1. mál, fjárlög 1931

Ólafur Thors:

Ég hefi ekki borið fram neina brtt. við þessa umr. fjárl., af því að ég veit, að það hefði ekki haft neina þýðingu. Eins og fleiri þm. er mér þetta nauðugt, sérstaklega vegna þess, að það er að komast sú venja á, að hv. Ed. ráði fjárl., og er þó hvorttveggja, að hún er minni d. og misbeitir þessu valdi sínu. Hún ræðst á ekkjur og munaðarleysingja til þess að troða í sínar bitlingaskjóður. Lækkar styrkinn til Slysavarnafélagsins niður í 14 þús. kr., strikar út ekknasjóðinn og lækkar við gamla og farlama menn — allt saman til þess að geta troðið í sína vini.

En það þýðir lítið að vera að fárast um þetta eða vera að halda hrókaræður út af því, en Nd. verður að sýna, hver það er sem ræður, enda gæti það vel orðið til þess, að hv. Ed. misbeitti ekki valdi sínu svo hrapallega.

Að öðru leyti skal ég ekki fara mörgum orðum um afgreiðslu fjárl. að þessu sinni. En það er hneykslanlegt, að stórmál skuli vera afgr. í sérstöku lagi við 1. umr. Á ég þar við berklahælið á Reykjum í Ölfusi. Skilji þó enginn orð mín svo, að ég viðurkenni ekki, að þetta mál sé gott og nauðsynlegt í sjálfu sér, en aðferðin er óverjandi með öllu, jafnvel þó að margir góðir menn hafi staðið að þessari samþykkt.

Hv. þm. Ísaf. skýrði frá því í ræðu, sem hann hélt hér fyrr í dag, að hann hefði beint tveim fyrirspurnum til hæstv. fjmrh., en ráðh. hvorugri svarað. Þótti hv. þm. Ísaf. þetta firn mikil.

Ég hefi tvívegis beint þeirri fyrirspurn til þessa hv. þm., hvort hann mundi styðja vantraust á ríkisstj., ef fram kæmi. Hann hefir engu svarað. Og ekki heldur nú, þegar hv. þm. Dal. spurði hann þessa sama.

Hv. þm. Ísaf. sagði í þessari sömu ræðu, er ég vitnaði til, að sig undraði það stórlega, að hv. þm. Mýr. o. fl. létu dólgslega um það, hversu Ed. hefði misbeitt valdi sínu, en vildi þó hinsvegar samþ. fjárl. eins og Ed. hefði gengið frá þeim. Hann sagði, að það ætti að vera samræmi milli orða og gerða. Annað væri bjánaskapur.

Nú hefir hv. þm. Ísaf. ráðizt allóþyrmilega á hæstv. stj. á þessum síðustu og beztu dögum. Afleiðingin ætti því að verða sú, að hann annaðhvort bæri fram vantraust sjálfur, eða þá að minnsta kosti styddi vantraust, ef aðrir bæru það fram. En hv. þm. Ísaf. fæst ekki einu sinni til að svara því, hvort hann mundi styðja vantraust, ef fram kæmi, svo að það situr sannarlega illa á hv. þm. Ísaf. að bregða öðrum um það, að ósamræmi sé á milli orða þeirra og gerða.

Hv. þm. Ísaf. sagði um hv. þm. Dal., að það smækkaði nú mjög manndómur þess árar sjálfstæðishetju, þar sem hann þyrði ekki að bera fram vantraustsyfirlýsingu, án þess að hafa tryggt henni fylgi fyrirfram. Það er nú svo. En hvað er að segja um manndóm hv. þm. Ísaf sjálfs? Hann ræðst grimmilega og með dólgsskap á stj., en þorir svo ekki þríspurður að svara því, hvað hann mundi gera, ef til vantrausts kæmi.

Haninn hefir galað í þriðja sinn. Þríspurður hefir hv. þm. Ísaf. engu svarað. Nú spyr ég hann í fjórða sinn, hvort hann muni greiða atkv. með vantrausti eða ekki, og ef hann enn, fjórspurður, svarar engu, ætti hann sem minnst að tala um smækkaðan manndóm annarra manna. Það eru fáir, sem ekki þora að segja af eða á, margspurðir, eftir að hafa látið eins dólgslega og hv. þm. Ísaf. hefir gert.

Þetta er líklega í síðasta skiptið, sem ég fæ tækifæri til að tala á þessu þingi, og harma ég það því, að mér skuli ekki gefast kostur á að segja þingsins mesta syndasel, — og sennilega heimsins líka, — til syndanna, þar sem hæstv. dómsmrh. er ekki viðstaddur. En þó að hæstv. dómsmrh. hafi sjaldan sézt í stól sínum hér í vetur, hugga ég mig við það, að hann verði í kjöri í sumar, og þá mun mér gefast tækifæri til að lesa honum dálítið af þeirri Jónsbók, sem ég á ólesið hér.