16.04.1930
Efri deild: 80. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2392 í B-deild Alþingistíðinda. (3197)

32. mál, vegalög

Jón Þorláksson:

Það er ómögulegt annað að segja um það vegalagafrv., sem hér liggur fyrir, en að það er óvenjulega óvönduð lagasmið, jafnvel í samanburði við það, sem tíðkast nú á þessum síðustu þingum. Eru mjög leiðinlegar misfellur á lýsingum þeirra vegakafla, sem teknir eru upp í frv., og vegamálastjóri hefir bent á, að þyrfti að laga með einföldum orðabreyt., án þess að raska efni. Auk þessa eru þeir vegakaflar, sem teknir eru í þjóðvegatölu samkv. frv., valdir af óvenjumiklu handahófi. Er það auðsætt hverjum þeim, sem kunnugur er úti um land, að margir vegakaflar eru skildir eftir, sem rétthærri eru en þeir rétthæstu í frv. Svo er t. d. um Snæfellsnesveginn vestur að Búðum, eins og vegamálastjóri hefir bent á. Er mjög illt, að ekki skuli fást samkomulag um að leiðrétta þessar sem aðrar misfellur, er á frv. eru.

Þá fór vegamálastjóri fram á það í erindi sínu til samgmn. hv. Nd., að bætt yrði við 2. efnisgr. vegal. ýmsum vegum, sem hann tiltekur í þessu erindi sínu, en það er prentað sem fylgiskjal við nál. samgmn. Nd. Er þessi gr. vegal. þess efnis, að ég get ekki ímyndað mér, að nokkur maður hafi gildar ástæður til þess að vera á móti þessum till. vegamálastjóra. En nú er öllum málum flaustrað af, svo að varla kemst annað að en það, sem beinlínis er kjördæmahagsmunamál einstakra þm. Að því, sem hefir almennara gildi, eins og er um þessar till. vegamálastjóra, er ekki hægt að beina athygli hv. þm., svo að því verði sinnt.

Ég viðurkenni það, að talsvert mælir með því, að sumir þessara vegakafla séu teknir í þjóðvegatölu, en aftur hafa aðrir engan rétt á sér þar. Og ég býst við, að sumum héruðum sé lítill greiði gerður með þessu. Vil ég í því sambandi benda á það, að hér er víða um hálfgerða akvegi að ræða, sem unnið er að með jöfnum framlögum úr sýslusjóði og landssjóði. Er það bráðnauðsynlegt, að haldið sé áfram með þessa vegi, en strax og þeir eru teknir í tölu þjóðvega, hættir öll vinna við þá á þessum grundvelli. En fást þá framlög til þessara vega í ár og næsta ár, þar sem ekki er gert ráð fyrir slíku á fjárl. þessara ára? Ég býst ekki við því, að stj. eða vegamálastjóri sjái sér fært að taka fé til þessara vega frá öðrum vegum, né heldur í heimildarleysi úr ríkissjóði. Ef þetta verður því til þess, að þessar vegagerðir stöðvist, sýnist mér viðkomandi héruðum sé lítill greiði gerður.

Einn þeirra vegakafla, sem þannig er ástatt um, er Vesturhópsvegurinn, og vil ég því leyfa mér að beina þeirri ósk til hæstv. stj., að hún lúti þetta ekki verða til þess, að þessi vegagerð stöðvist, heldur verði haldið áfram með hana af ríkinu með sama krafti og gert hefir verið undanfarin ár af hálfu þeirra aðilja, sem áttu að annast þessa vegagerð. Annars var mér skemmt við að sjá þennan veg tekinn nú í þjóðvegatölu, því að það er gömul till. frá mér. Þá féllst Alþingi ekki á að taka nema vestasta hlutann af veginum til greina, heldur var þjóðveginum haldið áfram á öðrum stað.