04.03.1930
Neðri deild: 43. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2398 í B-deild Alþingistíðinda. (3205)

202. mál, hafnarlög fyrir Vestmannaeyjar

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Hv. flm. beindi nokkrum orðum til stj. í sambandi við þetta mál, út af því, að hún hefði ekki verið svo ör á fjárframlög til þessarar hafnar eins og hún hafði fyllstu heimild til og óskað var eftir frá Vestmannaeyjum.

Því er ekki að leyna, að þetta er rétt. En hinsvegar verða hv. þm. Vestm. og aðrir þm., sem líkar raddir hafa heyrzt frá, að gera sér ljóst, að það er ekki að ástæðulausu, að stj. hefir skoðað hug sinn um það, áður en hún léti eins ört ganga féð til þessara mannvirkja og Vestmannaeyingar hafa óskað. Það kemur mjög glögglega fram í grg. þessa frv., að auk þess fjár, sem heimilað hefir verið og skiptir mörgum hundruðum þúsunda með beinum fjárframlögum úr ríkissjóði til þessarar hafnar, hefir ríkið ábyrgzt lán fyrir Vestmannaeyjar og orðið að borga af því, eftir því., sem hv. flm. hefir upplýst, nærri 700 þús. kr., og hér um bil allt þetta hefir orðið að gjalda utan fjárlaga.

Ég vil ekki deila við hv. flm. á þessu stigi málsins, því að hann hefir stillt í hóf. En þó verð ég að minnast lauslega á, að frá sjónarmiði stj. hefir dálítið óvenjulegt átt sér stað og ekki viðkunnanlegt í sambandi við þetta mál. Hv. þm. vitnaði til, að á árinu 1925 hækkuðu til stórra muna vörutollsgjöld í Vestmannaeyjum til hafnarinnar, og það varð samkv. rannsókn, sem þáverandi fjmrh., hv. 3. landsk., lét framkvæma. Svo kom ósk um það 1927, að þau gjöld væru lækkuð. Fjmrh. (JÞ) lagðist mjög á móti því, en samt var það gert að ráði þáverandi atvmrh., hv. 1. þm. Skagf., þvert á móti eindregnum till. fjmrh. Nú verður ekki hjá því komizt að taka þetta til athugunar að nýju, hvort ekki eigi að hníga að því ráði, sem þáv. fjmrh. áleit réttast, að Vestmannaeyingar ættu að standa undir þessum gjöldum.

Ég tók ekki eftir, að það kæmi skýrt fram hjá hv. flm., að það hefir ekki staðið á fjárframlögum frá stj. til garðanna. Þeir hafa verið styrktir, þannig að sem bezt væri frá þeim gengið, svo að þeir ónýttust ekki. En það eru þessi viðbótarmannvirki, sem engum dettur í hug að neita, að séu nauðsynleg, en hafa þó ekki verið studd mikið, af því að ekki hefir verið hreinlega ákveðið, hvernig ætti að standa straum af þeim. Af þessum ástæðum hefir landsstj. álitið, að málið ætti ekki að halda áfram í óvissu. Ég vildi henda hv. flm. á, að sú aðferð, sem höfð hefir verið, að þm. Vestm. beri fram sérstakt frv. á hverju þinginu eftir annað um fjárframlög í þessu skyni, hún sé mjög óheppileg. Þetta á að koma í fjárlögum eins og aðrar slíkar fjárveitingar; Það er rangt að gera allar þessar framkvæmdir og hafa öll þessi fjárframlög utan við fjárlögin.

Hv. þm. setti upp mikinn reikning um það, hvað ríkissjóður hefði miklar tekjur af Vestmannaeyjum. Ég ber ekkert á móti þessum tölum, en ef hv. þm. hefði viljað sýna rétta mynd, þá hefði hann ekki aðeins átt að taka tekjurnar, heldur sýna, hvað gjöldin hafa verið. Það er eins og með hvert annað fyrirtæki, að ekki verður séð, hvernig það ber sig, nema útgjöldin séu gerð upp líka. En út í það ætla ég annars ekki að fara.

Ég styð þá till. hv. þm., að málið fari til nefndar. En ég vildi gjarnan heyra nú eða síðar, hvort hv. þm. Vestm. teldi það ekki réttlátt að taka málið fyrir á breiðara grundvelli, en halda sér ekki einungis við það, sem kemur fram í þessu frv., heldur að taka nú fyrir allar fjárreiður Vestmannaeyjahafnar og gera upp.