04.03.1930
Neðri deild: 43. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2400 í B-deild Alþingistíðinda. (3206)

202. mál, hafnarlög fyrir Vestmannaeyjar

Flm. (Jóhann Jósefsson):

Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir það, að hann telur sig fúsan til að ræða þetta mál. Og þegar hann talaði um að taka það fyrir á breiðara grundvelli, lagði ég þann skilning í orð hans, að hann telji, að hér sé um svo mikla nauðsynjaframkvæmd að ræða, að stj. og þing eigi að sinna málinu. Ég býst því við að fá á sínum tíma að heyra nánar álit hans og meðstjórnenda hans um þetta mál.

Hæstv. ráðh. minntist á það lán, sem ríkissjóður er í ábyrgð fyrir og hefir orðið að borga afborganir af. Ég verð að segja það, að ég ber í raun og veru ekki nokkurn kinnroða gagnvart stj. fyrir það, þó að hún hafi orðið að hlaupa undir bagga með þessu héraði að því er Monbergsskuldina snertir. Hafnarmannvirkin voru þannig byrjuð í upphafi, að stj. hlýtur ávallt ámæli fyrir. Ég á ekki persónulega við hæstv. forsrh. og meðstjórnendur hans, heldur ríkisvaldið í heild sinni. Og þegar um slíkar misfellur er að ræða sem hér, þá er ekki rétt, að þær komi allar á bak héraðsbúa.

Önnur ástæða, sem mér fannst hæstv. forsrh. telja hafa valdið andúð gegn Vestmannaeyingum í hafnarmálinu, var það, að áður en stjórnarskiptin urðu síðast, hafi verið lækkaður eitthvað lítilsháttar vörutollur, sem goldinn var til hafnarinnar. Það er satt, að lækkun átti sér stað, en mjög nauðsynleg og aðeins á einstökum vörutegundum. Enn í dag bera Vestmannaeyingar vörutoll, sem er a. m. k. þrefaldur, jafnvel fjórfaldur á sumu við þann vörutoll, sem greiða þarf hér í Reykjavík. Ég býst við að geta sýnt hæstv. forsrh. fram á það við tækifæri, hversu miklu hærri vörutollurinn er í Vestmannaeyjum en annarsstaðar á landinu. En ef það skortir á, að við greiðum ekki nægilega háan vörutoll, samanborið við aðra kaupstaði, þá hygg ég, að þær stéttir manna í Vestmannaeyjum, sem eiga afkomu sína meira eða minna undir því, að haldið sé áfram með höfnina, muni ekki undan því skorast, að hækkuð séu gjöldin, ef það er sanngjarnt að hækka þau, heldur en að á því strandi með allar framkvæmdir til umbóta höfninni. Það þætti okkur tilvinnandi, ef ríkið rétti þá betri hjálparhönd til stuðnings en stj. hefir nú gert.

Ég neita algerlega, að ég hafi komið með nokkurn villandi samanburð um það, hvað Vestmannaeyjar gefa af sér fyrir ríkið með þeim tölum, sem hér eru fram bornar í grg. frv. Þó að ríkið leggi Vestmannaeyjum til héraðslækni og bæjarfógeta og fleira þess háttar, eins og gerist og gengur á öðrum stöðum, verður það ekki metið sem sérstök hlunnindi. Þá ætla ég, að hæstv. forsrh. hafi verið á þeirri skoðun hér fyrr á þingi, þegar hann lagðist mjög ákveðið á móti því, að landið léti af hendi eyjarnar til bæjarfélagsins. Það er augljóst, og öllum hlýtur að koma saman um það, að þegar ríkið er búið að kosta svo miklu til að byggja hafnargarða í Vestmannaeyjum, þá hlýtur afleiðingin að vera, að ríkið og bærinn reyni í félagi að gera þá eign svo arðberandi sem hægt er. En það verður bezt gert með umbótum á mannvirkjum innan hafnar. Nú gengur lítið, þó að Vestmannaeyingar leggi á sig þungar byrðar til að koma af stað framhaldsendurbótum. Þær eru þeim einum um megn, en fyrr en þeim er lokið er ekki að vænta, að hægt sé að beita fullri orku við framleiðsiuna, en undir magni hennar eru tekjur ríkissjóðs af Vestmannaeyjum mest komnar.