04.04.1930
Neðri deild: 71. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2404 í B-deild Alþingistíðinda. (3210)

202. mál, hafnarlög fyrir Vestmannaeyjar

Hannes Jónsson:

Það lítur út fyrir, að þetta frv. eigi að ganga í gegnum þingið, því ég sé af nál. á þskj. 378, að sjútvn. leggur eindregið með því, að frv. sé samþ.

Í aths. við frv. á þskj. 202 er þess getið, að, ríkissjóður hafi lagt fram sem styrk til hafnarbóta 422.259,22 kr. Ennfremur er þess getið, að ríkissjóður hafi greitt vegna ábyrgða, sem hann var í fyrir Vestmannaeyinga, 692.616,94 kr. Alls hefir því ríkið lagt fram til hafnarbóta í Vestmannaeyjum rúml. 1.100 þús. kr.

Samkv. landsreikningum er það nokkurnveginn ljóst, að ríkið hefir lagt fram sem styrk og greitt vegna ábyrgða fyrir Vestmannaeyinga um 1.300 þús. kr. Hér er því a. m. k. um 200 þús. kr. fjárframlag að ræða fram yfir það, er getur í grg. frv. Það, sem ríkið því hefir greitt vegna ábyrgða á framkvæmdum í Vestmannaeyjum, er um 900 þús. kr.

Nú virðist ástæða til, að um leið og þetta frv. er ákveðið, komi fram hér á þinginu það skilyrði, að þetta verði því aðeins greitt, að samningar takist milli Vestmannaeyja og ríkisins um greiðslu á því, sem ríkið hefir borgað vegna ábyrgða fyrir Vestmannaeyinga.

Mér skildist á hv. þm. Vestm., að engin hætta væri á því, að þeir borguðu ekki, enda getur vel verið, að þeir geri það, en mér finnst rétt að tryggja það með samningum. Hæstv. stj. hefir víst líka þótt þessi greiðsla vafasöm, því í landsreikningunum er hún ekki talin til útistandandi skulda. En það ætti hún að vera, ef nokkrar líkur eru til, að hún greiðist. Og þegar fengnir eru fastir samningar, finnst mér sjálfsagt að telja það meðal útistandandi skulda.

Ég geri ráð fyrir, að þessar umbætur séu nauðsynlegar. Og þar sem búið er að leggja svo mikið fram frá ríkinu, finnst mér sjálfsagt að leggja þetta fram líka. Ég legg áherzlu á það, að gengið sé svo frá þessum viðskiptum, að ekki sé vafi, hvaða skuldakröfu ríkið eigi á Vestmannaeyinga. Ég tel það vafa, að það fáist allt greitt, en ég vil láta gera upp sem fyrst, hvað á að greiðast og hvað það er, sem ríkið ætlar að gefa eftir til samkomulags.