04.04.1930
Neðri deild: 71. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2407 í B-deild Alþingistíðinda. (3213)

202. mál, hafnarlög fyrir Vestmannaeyjar

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Það er leiðinlegt að þurfa alltaf að svara sama hv. þm. um sömu atriði. Hv. þm. V.-Húnv. var að kvarta undan, að ég minntist oft á sömu tölurnar. Ég geri það auðvitað vegna þess, að hann er alltaf að tönglast á sömu andmælunum. Það er eins og hann telji það hlutverk sitt að spilla fyrir öllum hafnargerðum. Ég veit ekki, hvað hann meinar með því. Hjá öðrum mundi þetta vera kallað fyrirtekt eða jafnvel annað lakara, en mér finnst það orð ekki eiga við eins valinkunnan mann og hv. þm. V.-Húnv.

Hv. þm. V.-Húnv. vill setja það að skilyrði fyrir fjárveitingu til hafnarinnar í Vestmannaeyjum, að samningar takist milli ríkisstj. og Vestmannaeyinga um eldri skuldaskipti. Á það get ég ekki fallizt. Ég veit ekki, hverskonar jarðarmen hv. þm. ætlar okkur Vestmannaeyingum að ganga undir. Þó hér sé að ræða um allmikið fé fyrir Vestmannaeyinga, þá gæti ríkisstj. sett þeim slíka kosti, að þeir gætu ekki að þeim gengið. Er það sennilega það, sem hv. þm. vill, ef hann annars veit, hvað hann vill, sem líka má efa.

Yfir því hefir verið lýst, hvernig hv. sjútvn. lítur á þetta mál, og er þess ekki að vænta, að betri tillögur komi um það frá hv. þm. V.-Húnv.