11.03.1930
Neðri deild: 50. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2410 í B-deild Alþingistíðinda. (3231)

213. mál, skurðgröfur

Flm. (Bjarni Ásgeirsson):

Frv. þetta, er hér liggur fyrir og er fram borið í samráði við Sigurð Sigurðsson búnaðarmálastjóra; skýrir sig að mestu leyti sjálft með þeirri glöggu grg., sem því fylgir, en þó vil ég bæta nokkrum orðum við, er það fer nú úr hlaði.

Það gengur í þá átt, að ríkið aðstoði menn við framræslu í stórum stíl. En um framræslu má segja það, að hún sé undirstaða allrar ræktunar. Á henni verður alstaðar að byrja, svo að óþrjótandi verkefni eru fyrir hendi í þessu efni. Þegar breyta á landi í tún, verður venjulega að byrja á framræslu. Og svo er einnig um engjarækt, að það borgar sig ekki að nytja land án þess að ræsta það fram. Sama verður og ofan á um beitarlönd, að blautar forarmýrar koma ekki að hálfu gagni á meðan þær eru ekki ræstar fram.

Í þessi samb. vil ég benda á, að uppi á Mýrum eru víðáttumeiri mýrarlönd en nokkursstaðar á landinu. En svo eru þau blaut, að þar þrífst víða enginn nytjagróður, og má því segja, að lítill hluti þessa mikla landflæmis komi að nokkru verulegu gagni, hvorki til beitar né annarar notkunar. Auk þess eru þarna stór svæði, sem eru hættuleg búpeningi manna, enda hefir komið fyrir, að 100 ær hafa farizt þar árlega í fenjum og dýjum í einum fámennum hreppi. Þess vegna er það knýjandi nauðsyn að athuga, hvaða leið sé hagkvæmust til þess að gera lönd þessi nothæf.

Allir þeir, sem byrjað hafa á einhverri ræktun, hafa fljótt tekið eftir því, hve mikils virði framræslan er. Menn geta að vísu komizt af með smærri skurði til að byrja með. En eftir því sem ræktunin eykst og hún er framkvæmd í stórum stíl, verður óumflýjanlegt að gera stærri skurði en svo, að bændur geti upp á eigin spýtur staðið straum af þeim kostnaði. Þegar um stór ræktunarfyrirtæki er að ræða, verður ríkið að hlaupa undir baggann, eins og t. d. gert hefir verið á Skeiðum og í Flóa og nú síðast í Skagafirði.

Sem stendur á ríkið tvær skurðgröfur, aðra til þess að vinna á mismunandi þurru landi, en hin er fljótandi. Báðar hafa skurðgröfur þessar reynzt framúrskarandi vel: Hefir sú fyrri verið notuð við stærri skurðagerð bæði um Skeið og Flóa, en hin, sú fljótandi, hefir verið notuð af áveitufélaginu Frey í Skagafirði. Báðar hafa skurðgröfurnar reynzt svo ódýrar í rekstri, að kostnaðurinn við gröftinn er áætlaður 1/3 á móts við að nota handaflið eingöngu.

Nú eru komnar til sögunnar ýmsar smærri skurðgröfur, t. d. í Þýzkalandi. Er því nauðsynlegt að útvega þær hingað til reynslu, enda trú þeirra manna, sem bezt þekkja til, að þær mundu koma hér að miklu liði.

Það, sem þetta frv. miðar að, er að koma öllum stærri skurðum í samskonar kerfi og nú á sér stað um þjóðvegina, og að umsjón og starfræksla skurðgrafnanna sé falin Búnaðarfélagi Íslands. Út frá stærri skurðunum kvíslast svo smærri skurðir, sem einstaklingarnir geta ráðið við.

Eins og kunnugt er, hefir það verið venja að styrkja slíkar framkvæmdir úr ríkissjóði með ¼ af kostnaðinum. Svo hefir það t. d. verið í Flóanum og víðar. Með frv. þessu er farið fram á, að ríkið leggi fram 1/3 kostnaðar, og er það gert með það fyrir augum, að meiri skriður komist á þetta mál. Hinsvegar er það gert að skilyrði fyrir styrknum, að í þessar framkvæmdir verði ekki ráðizt fyrr en þeir, sem verksins eiga að njóta, hafi 1/3 af áætluðum kostnaði í handbæru fé, eða tryggingu fyrir því, að féð verði til jafnóðum og þarf að nota það.

Það hefir sýnt sig t. d. austanfjalls, þegar ráðizt var í hinar stóru áveitur þar, að þá var þess ekki gætt nógu vel, að þeir, sem framkvæmdanna áttu að njóta, legðu sinn ákveðna hluta kostnaðarins fram strax eða jafnóðum. Og því hefir ríkissjóður orðið að blæða margfalt meira en ætlazt var til í öndverðu. Annars ætti þetta að vera kleift, þegar þess er gætt, að hér er um ræktun að ræða, sem hlýtur fljótt að gefa mikinn og góðan arð.

Ég sé svo ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri, en vænti, að frv. fái að ganga til 2. umr. og að því verði, að þessari umr. lokinni, vísað til hv. landbn.