06.03.1930
Efri deild: 44. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2422 í B-deild Alþingistíðinda. (3257)

78. mál, áfengislög

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Við 1. umr. þessa máls skýrði ég að nokkru breyt. þær, sem felast í þessu frv. Þær ganga að mestu í þá átt, að hægt sé að hegna fyrir brot gegn reglugerðum um þetta efni, en í lögunum frá 1928 hefir þinginu skotizt yfir að setja ákvæði, sem heimiluðu það. Flestar till. lúta að þessu, en það eru aðallega tvær brtt., sem fela annað í sér, sem sé 1. gr. og 6. gr.

Nú hefir allshn. haft málið til meðferðar og hún hefir verið alveg samþ. um það, að sjálfsagt sé að hafa lögin þannig, að þau megi koma að tilætluðum notum. Hinsvegar var strax frá byrjun ágreiningur um 1. gr. innan n., og fer ég því nánar inn á efni hennar. — Hún gengur út á það, að óheimila útlendum skemmtiferðaskipum að veita gestum vín um borð í skipunum, er þau liggja hér á höfninni, en hingað til hefir þeim verið heimilað að veita vín. Ástæðan fyrir þessari breyt. er sú, að álitið er, að af þessu hafi nokkur drykkjuskapur stafað, og þá einkanlega hér í Reykjavík, og er það án efa rétt.

Hinsvegar hafa þau mótmæli komið fram gegn því að setja þetta ákvæði í lögin, að hér séu útlendir ferðamenn beittir harðari ákvæðum en landsbúar sjálfir, þar sem þeim sé heimilt að hafa vín um hönd í heimahúsum, ef fylgt er fyrirmælum áfengislaganna. Þá hafa ýmsir, sem kunnugir eru viðskiptum þjóða í millum, látið þá skoðun í ljós við mig bæði innan þings og utan, að þetta ákvæði sé alls ekki frambærilegt. Hafa þeir nefnt sem dæmi upp á þetta, að íslenzka ferðamannafélagið, sem hefir það starf með höndum að reyna að auka gestkomuna hingað til lands, kynni að bjóða einhverjum gestanna til borðhalds á bezta matsöluhúsi bæjarins, t. d. hótel Borg, sem hefir leyfi til að veita vín við máltíðir. Ef svo þessir erlendu gestir vildu gera lík skil og byðu mönnum um borð til svipaðra veitinga, þá væri þeim óheimilt að veita gestum sínum vín með mat, þótt þeim sé sjálfum heimilt að neyta þess. Þetta hafa ýmsir mætir menn álitið varhugavert og látið þá skoðun sína í ljóð við mig, og þótt ég sé þeim ekki að öllu leyti samþykkur, get ég þó fallizt á, að þeir hafa nokkuð til síns máls, og mun því ekki mæla með þessari breytingu.

Ég vil taka það fram, að ég vil vinna allt fyrir áfengislöggjöfina, sem að gagni má verða, en vil hinsvegar forðast að setja ósanngjörn ákvæði inn í lögin, sem vekja almenna óánægju og geta orðið til að veikja áhrif laganna.

Þá vil ég fara nokkrum orðum um hina brtt., sem valdið hefir ágreiningi í n., sem er 6. gr. Hún gengur í þá átt, að numið sé úr gildi það ákvæði, sem heimilar lögreglustjóra að veita undanþágu um vínveitingar við sérstök tækifæri. Ég lít öðrum augum á þetta atriði en hv. meðnm. mínir, en hefi þó beygt mig undir vilja þeirra til þess að fá samkomulag um þær breyt., sem ég legg aðaláherzluna á að nái framgangi. Ég hefi því gengið inn á að sitja hjá við atkvgr. um niðurfelling þessa atriðis og láta hv. deild ráða úrslitum.

Aðrar brtt. n. eru aðeins lagfæringar, en um 8. gr. er það að segja, að n. þótti betra að orða gr. alveg um heldur en að breyta þar einstökum orðum.

Síðasta brtt. n. mælir fyrir um það, að ef frv. þetta nái fram að ganga, skuli það fellt inn í lögin frá 1928 og þau gefin út þannig breytt, til þess að almenningur eigi aðgang að lögunum í einu lagi

Að síðustu vil ég þakka fyrir góða samvinnu í allshn. og vona, að hv. deild sýni frv. þessu velvild, svo það nái fram að ganga.