06.03.1930
Efri deild: 44. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2426 í B-deild Alþingistíðinda. (3260)

78. mál, áfengislög

Erlingur Friðjónsson:

Mér þykir þessi n., sem hefir fjallað um brtt. á bannlögunum, hafa orðið nokkuð veikhentari á till. heldur en ég hefði talið ástæðu til. Á ég þá sérstaklega við það, að hún virðist vera sammála um það, þótt hv. frsm. hafi þar sérstöðu, að fella niður 6. gr. þessa frv., sem er um það, að numið sé úr áfengislöggjöfinni það óheppilega ákvæði, sem skotið var inn í áfengislögin við 3. umr. málsins í hitteðfyrra, að lögreglustjórar gætu leyft áfengisnautn fram yfir það, sem lögin sjálf gera ráð fyrir að almenningi sé frjálst. Það er m. ö. o. undanþága, sem lögð er á vald lögreglustjóra að ákveða, hvenær skuli veitt. Reynslan hefir sýnt, að í æðimörgum tilfellum hafa lögreglustjórar veitt þessa undanþágu frá löggjöfinni. Þetta er mjög ranglátt gagnvart öllum almenningi, því slíkrar undanþágu getur almenningur ekki orðið aðnjótandi, jafnvel þótt gert sé ráð fyrir, að lögreglustjórar noti þetta töluvert víðtækt. Og þó að ég tali hér um, að það sé ranglátt, þá er ekki svo að skilja, að ég telji það nauðsynlegt fyrir almenning að geta notað þessa undanþágu, heldur af hinu, að það er vitanlegt, að svona undanþágur verða einkum notaðar af sérstökum mönnum og félögum og sennilega eingöngu í þeim kauptúnum og kaupstöðum, sem hafa mesta löngun til þess að ganga á móti anda áfengislöggjafarinnar.

Mér þykir það harla leitt um hv. frsm. þessa máls, að hann treystir sér ekki til að greiða atkv. á móti þeirri brtt., sem n. flytur á þskj. 215 viðvíkjandi þessu ákvæði, því að í mínum augum er þetta í raun og veru stærsta atriðið, sem tekið er fram í þessu frv. á þskj. 78. Það er a. m. k. óhætt að segja, að ef á að skjóta slíku máli undir réttarmeðvitund almennings, eins og hv. 3. landsk. var að tala um og vildi skjóta sumum þessum málum undir, þá dæmir réttarmeðvitund almennings þetta ákvæði í áfengislöggjöfinni tvímælalaust óhafandi. Ég vil því beina því til hv. 3. landsk., sem vill skjóta málum sínum undir þann dómstól, að hann ætti að hjálpa til þess að koma þessu ákvæði burt úr áfengislögunum, enda þótt hann hafi orðið til að setja það inn fyrir ekki alllöngu síðan. Ég mun því hiklaust greiða atkv. á móti þessari brtt. og fleirum, sem n. flytur, því að yfirleitt ganga þær í þá átt að draga úr ákvæðum frv.

Ég skal aðeins í sambandi við þetta minnast á þá skoðun, sem fram hefir komið hjá hv. 3. landsk., að réttarmeðvitund almennings, eins og hann komst að orði, væri á móti ströngum refsiákvæðum. (JÞ: Það hefi ég ekki sagt!). Ég skrifaði nú þetta upp eftir hv. þm., svo að ég held, að ég verði að ganga út frá því, hvað sem hv. þm. segir nú. (JÞ: Ég sagði, að réttarmeðvitund almennings væri á móti ströngum refsiákvæðum fyrir lítil brot, svo ströngum, að refsiákvæðin væru meira brot á réttarmeðvitund manna heldur en lagabrotið sjálft). Þá er það alveg rétt, sem ég hefi haft eftir hv. 3. landsk., að öðru leyti en því, að hann bætir aftan í „fyrir lítil brot“, en það er atriði, sem réttarmeðvitund fólksins dæmir líka. Ég veit t. d., að ekki fer saman réttarmeðvitund okkar hv. 3. landsk. um, hvað séu stór eða lítil brot.

Það, sem hann vildi aðallega sanna, var það, að löggjöfin kæmi ekki að fullum notum, ef réttarmeðvitund fólksins væri á móti henni, fyrir þær sakir, að fólkið fari þá að hylma yfir brotin. (JÞ: Það var hv. 2. þm. S.-M, sem lýsti því yfir; ég tók það upp eftir honum). Má ég þá aftur spyrja: Er þetta ekki skoðun hv. 3. landsk.? (JÞ: Ekki samtal í deildinni!). Hv. 3. landsk. kom þessu samtali af stað með því að grípa fram í fyrir mér. Almenningi er heldur ótamt að vilja koma upp lagabrotum; en það byggist ekki á því, að fólkið álíti ekki, að rangt sé að brjóta lög, heldur af vorkunnsemi fyrir þeim, sem brotlegir verða. Það verða ekki læknuð meinin með því að hafa sektarákvæðin væg, hvorki í þessum efnum eða öðrum, því yfirleitt verða þau að skapa þann hita í haldi fyrir þann, sem veikur er fyrir eða kannske vill af ásettu ráði brjóta lögin, að hann geri það sem sjaldnast.