11.03.1930
Efri deild: 48. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2429 í B-deild Alþingistíðinda. (3264)

78. mál, áfengislög

Jóhannes Jóhannesson:

Út af ummælum hv. 3. landsk. við 2. umr. þessa máls fór ég að athuga ákvæði áfengislaganna um refsingu fyrir ólöglegan tilbúning áfengis, og komst að þeirri niðurstöðu, að ósamræmi er í refsiákvæðunum fyrir skyld brot, svo sem ólöglegan innflutning áfengis og um bruggun áfengra drykkja. — 6. gr. laganna hljóðar svo: „Bannað er að brugga á Íslandi eða búa til áfenga drykki eða áfengisvökva og að gera drykkhæft það áfengi, sem er eða gert hefir verið óhæft til drykkjar“. — Þetta bann nær bæði til bruggunar áfengra drykkja og til þess að gera ónothæft áfengi drykkhæft, hvort heldur það er gert í þeim tilgangi að selja öðrum eða veita fyrir borgun, eða aðeins til þess að brugga t. a. m. öl einungis til heimilisnota, þótt ekki sé það nema örlítið sterkara en ráð er gert fyrir í lögunum. — Svo fór ég að athuga refsiákvæðin í 30. gr. laganna, þar sem sagt er, að brot gegn 6. gr. varði refsingu eftir 1. lið 27. gr. laganna. En þar er sagt, að „fyrir brot gegn 1. gr. skal refsa þannig: Ef áfengi er flutt inn í þeim tilgangi að selja það eða veita fyrir borgun, þá varðar það sektum“, — lágmark þeirra er 1.000 kr., en hámark getur orðið 20 þús. kr.; ennfremur skal sölumaður sæta fangelsi. Sé áfengið hinsvegar ekki flutt inn til sölu eða veitinga fyrir borgun, er refsingin aðeins sektir, 200–3.000 krónur. Brot gegn 6. gr. varða því sektum og fangelsi, hvernig sem brotinu er varið. Þó aðeins hafi verið bruggað öl eingöngu til heimilisnota, sem aðeins er lítið eitt yfir hið lögleyfða hámark að styrkleika, en ekki til sölu, þá varðar það refsingu samkv. 1. stafl. 27. gr., sem er minnst 1.000 kr. sekt og auk þess fangelsisvist.

Það hljóta allir að sjá, að þetta er með öllu óhæf refsing, þegar bruggun fer ekki fram í þeim tilgangi að hafa drykkinn til sölu. Ég lít svo á, að það verði að vera samræmi í refsiákvæðunum; brotin eru mjög mismunandi, eftir því, hvort þau eru gerð í gróðaskyni eða ekki. Ég hefi því leyft mér að bera fram brtt. á þskj. 240, þess efnis, að nýju refsingarákvæði fyrir brot gegn ákvæðum 6. gr. áfengislaganna verði bætt inn í lögin og verði refsingin mismunandi eftir því, hvort áfengið hefir verið ætlað til sölu eða veitinga fyrir borgun eða ekki, eins og þegar um innflutning áfengis er að ræða. Þó að þessi brtt. verði samþ., þá stendur niðurlag 30. gr. óhaggað. Sjá því allir, að þó að þessi brtt. mín verði samþ., þá eru refsiákvæði áfengislaganna nægilega ströng fyrir að brugga áfenga drykki og gera óhæfilega drykki nothæfa til drykkjar. Ég skal geta þess, að ég flyt þessa brtt. til þess að bæta úr ósamræmi í lögunum og gera þau vinsælli, en ekki til þess að spilla fyrir þeim. Ef ákvæðin eru samræmd, þá verða lögin vinsælli, því að ef ólík refsiákvæði eru sett gegn svipuðum brotum, þá verður stöðug óánægja, sem hamlar því, að lögin nái þeim tilgangi, sem þeim er ætlað.

Síðastl. laugardag, þegar frv. þetta var tekið á dagskrá til 3. umr., hafði mér ekki unnizt tími til að bera þessa brtt. undir meðnm. mína, en nú hefi ég gert það, og veit ég ekki betur en að þeir séu henni báðir samþykkir. Vil ég því leyfa mér að óska þess, að brtt. verði samþ.