14.04.1930
Neðri deild: 79. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2431 í B-deild Alþingistíðinda. (3273)

78. mál, áfengislög

Frsm. minni hl. (Magnús Torfason):

Ég verð að byrja á að beiðast afsökunar á því, hvernig þetta mál hefir borið að hér í þessari hv. deild.

Þetta mál var rætt fram og aftur í allshn., en þá skildist mér, að 2 sjálfstæðismenn létu sig þetta mál litlu skipta, svo að ég noti ekki harðari orð. Að vísu skildist mér þeir vera með sumum ákvæðum frv., en ekki geta þýðzt önnur. Sama er að segja um formann n. Mér skildist hann láta sér næsta ótítt um þetta frv.

Af því að ég sjálfur er „Jónasar“maður í þessu máli og það er vitanlegt, að hæstv. dómsmrh. leggur mikla áherzlu á, að þetta frv. nái fram að ganga, þá vildi ég flýta fyrir því, og þá sérstaklega vegna þess, að ekki var hægt að halda fund. Nál. það, sem hér liggur fyrir, er því aðeins fyrir mig og annan nm., hv. 2. þm. Reykv., og leggjum við það til, að þetta frv. nái fram að ganga.

Ég ætla að skírskota til þess, að í frv. eru ýmsar breyt. til bóta og nauðsynlegir viðaukar við áfengislögin. Þótt ég viðurkenni, að sumir hv. þm. muni hafa kynnt sér þetta frv. rækilega, þykir mér hlýða að rekja hér í örfáum orðum þessar breyt. og þýðingu þeirra.

Það er þá fyrst frá því að segja, að breyt. í 1. gr. og fyrri breyt. í 4. gr. og sömuleiðis breyt. í 7. gr. eru aðeins til skýringar lögunum. Þetta er gert til þess, að hæstiréttur eigi auðveldara með að dæma í þessum málum, því nú eru þessi ákvæði laganna ekki svo skýr, sem þau þyrftu að vera.

2. gr. frv. inniheldur það nýmæli, að ekki skuli aðeins gera bruggunaráhöld upptæk, heldur skuli líka ónýta þau. Vona ég, að hv. dm. geti fallizt á þetta. Það er að vísu ekki mikið verðmæti í þessum áhöldum, en með því móti að ónýta þau er girt fyrir það, að áhöldin verði notuð framvegis.

Þá er í 3. gr. frv. nokkurt nýmæli um það, að menn megi ekki nota það áfengi til nautnar, sem þeir hafa fengið samkv. læknisvottorði undir því yfirskini, að það sé í löglegum tilgangi. Þessi till. hefir áður verið hér á þingi til umr., þótt hún hafi ekki náð fram að ganga, svo mönnum mun hún kunn. Þó vil ég benda á það, að þessi till. í 3. gr. stendur í sambandi við b-lið till. í 4. gr., um að síðasta mgr. 21. gr. falli burt. En sú mgr. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta, og bið ég menn að taka vel eftir:

„Hver sá, sem tekur á móti áfengi, sem um ræðir í þessari grein, og notar það til nautnar, skal sæta sektum“.

Þessi mgr. er felld niður, (Forseti BSv: Bravó!), og álít ég það stóra réttarbót á þessum lögum. (Einhver: Ætli þetta ákvæði hafi verið haldið hingað til? Ekki hér, þótt hér sé lögreglustjóri). Ég skal ekki fara út í þá sálma hér í þessari hv. deild. (Einhver: Það hefir líklega verið haldið í Árnessýslu). Ég held, að það hafi verið haldið fullt svo vel þar sem annarsstaðar.

Í sambandi hér við eru ákvæði um það, að ef læknir gefur manni áfengislyfseðil, þá er hann ekki sekur um að neyta þess í eitthvað ríflegri mæli en stendur utan á glasinu. Ég skil þetta svo vel. Það er hér um bil ómögulegt að koma lögum yfir þesskonar. Brotið, ef nokkurt er, er vitanlega ekki að þiggja það, heldur að gefa lyfseðilinn. Ég verð að halda, að það sé yfir höfuð að tala móti náttúrunni og eðlisfari þessarar þjóðar að refsa fyrir slíkt, að taka á móti því, sem að manni er rétt. (HK: Alveg rétt). Það er á móti öllu gestrisnislögmáli. Ég er sannfærður um, að h. u. b. allir Íslendingar líta svo á, að maður eigi ekki að spyrja blessaðan gjafarann, hvort hann sé vel að því kominn. Vitanlega geta verið undantekningar, sem eru refsiverðar, en í öllum slíkum tilfellum verður að fara varlega. Þessi regla nær þannig út fyrir áfengislögin, ef taka á tillit til hennar. Ég kann því vel við þessa nýju reglu, því með henni er mikil réttarbót fengin.

Þá kem ég að 5. gr. frv. Breytingin þar er um þessar 40 kr., sem sérstaklega á að borga fyrir hvern lítra áfengis. Í lögunum frá 1928 er þetta ákvæði svo:

„Auk sektar skal greiða 40 kr. á hvern lítra þess áfengis, sem innflutt var“.

En eftir frv. á þetta að hljóða þannig: „Auk þess greiðist í sekt 40 kr. á hvern lítra áfengis, sem innflutt er“.

Þetta ákvæði gerði það að verkum, að ekki var hægt að láta afplána þessar 40 kr. bætur á hvern lítra. Úr þessu er nú bætt, og tel ég það sjálfsagt.

Þá kemur 6. gr. frv., sem er við 30. gr. laganna. Hún er um sektir fyrir bruggun. Eftir gr. eins og hún er í lögunum geta þessar sektir orðið frá 1.000–20.000 kr., en eftir frv. verða þær 500–5.000 kr.

Í núgildandi lagagrein er talað um fangelsi, og er það miðað við, að brotið sé margítrekað, en eftir þessu frv. er fangelsið miðað við það, að áfengið sé ætlað til sölu eða veitinga fyrir borgun. Það er einmitt þetta, að brjóta áfengislögin til ávinnings, sem er ljótt, og fyrir það ber vitanlega að refsa.

Þá kemur 8. gr. frv. Hún er aðeins afleiðing till. um það, að fella niður síðustu mgr. 21. gr.

Loks er 9. gr. Þar er það nýmæli, að hægt sé í reglugerð, sem sett kann að verða, að ákveða refsingu fyrir hlutdeild í brotum á reglugerðarákvæðinu.

Hvað þetta atriði snertir fannst mér og hv. meðnm. mínum það ganga nokkuð vítt og vildum þess vegna takmarka reglugerðina við það, að það snerti aðeins brot framin fyrir ávinningssakir. Það veit hver einasti maður, að það er ljótt að gera sig sekan um slíkt, og get ég því ekki séð neitt á móti því, að sett séu ákvæði um það.

Þá skal ég geta þess viðvíkjandi þeim brtt., sem við berum hér fram, að fyrri brtt. er aðeins leiðrétting á prentvillu í frv. Það stendur þar „áfengi“ í staðinn fyrir „áfengið“. Þar sem þetta er prentvilla í frv., þarf eiginlega enga brtt., og heldur skrifstofustjóri, að megi lagfæra þetta í prentun. Hin brtt. er um, að í stað „nautna“ komi „nautnar“. Það mun líka mega lagfæra í skrifstofunni.

Með þessum skýringum get ég tekið þessar brtt. aftur, og mælist því til þess, að frv. verði samþ. óbreytt.