14.04.1930
Neðri deild: 79. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2437 í B-deild Alþingistíðinda. (3275)

78. mál, áfengislög

Frsm. minni hl. (Magnús Torfason):

Mér finnst ég hafa vaxið dálítið síðan ég stóð síðast upp, því nú er ég eiginlega ekki lengur aðeins frsm. minni hl., heldur er ég orðinn frsm. meiri hl. Í því sambandi vil ég þakka hv. sjálfstæðismönnum fyrir, hvað vel þeir hafa tekið í þetta mál.

Það er rétt hjá hv. 1. þm. Skagf., að ég er hræddur við þetta ótiltekna vald til að ákveða refsingar í reglugerðinni. En minni hl. tekur skýrt fram í nál. og leggur áherzlu á, að refsingu fyrir hlutdeild verði því aðeins beitt, að um brot í hagnaðarskyni sé að ræða. Og hv. þm. hefir tekið undir þetta fyrir hönd síns flokks, og lít ég því svo á, að þessu atriði sé vel borgið. (MG: Það er engin flokkssamþykkt um þetta). Ég tel nú samt, að mikið megi byggja í orðum þess manns, sem hefir framsögu fyrir sinn flokk, ef ekki koma fram mótbárur. Hinsvegar tel ég ekki rétt það, sem hv. þm. hélt fram, að hægt væri að setja þannig ákvæði í reglugerð eftir þessu frv., að eftir þeim mætti sekta menn fyrir að súpa á hjá náunganum. Svo eigum við líka til nokkuð, sem heitir hæstiréttur, og hann mun ábyggilega taka fullt tillit til þess, sem hér er sagt.

Ég verð að lýsa því yfir, að ég tel þessa lagabreyt. til talsvert mikilla bóta, og það býst ég við, að flestir bannmenn geri.

Hv. 4. þm. Reykv. fann að því, að fella á niður að refsa þeim mönnum með fangelsisvist, sem brugga til heimilisnotkunar. En ég held, að refsiákvæði laganna séu sæmilega áhrifamikil fyrir því. Og 500–5.000 kr. sektir munu oft verka sem fangelsisdómur, því fáir, sem leggja sig í að brugga áfengi, munu hafa ráð á að snara út 5.000 kr. (SÁÓ: Þeir eru fljótir að græða). Það á áfram að refsa með fangelsi, þeim sem hagnað hafa af brugguninni.

Þá hélt sami hv. þm. fram, að drykkjuskapur færi vaxandi í landinu. Ég held þetta sé ekki rétt, a. m. k. ekki að því er snertir mína sýslu. En það gildir sennilega enn sama lögmálið og á tíð Ólafs helga. Um það leyti, sem hann var að ná sér í konuna, var sagt, að þá væru „korn mikil og drykkjur miklar“. Fer oft saman góðæri og mikill drykkjuskapur; þverrar hann svo aftur þegar harðnar í ári.

Hitt get ég þakkað hv. 4. þm. Reykv., hvað hann vill þessu máli vel. Lög þessi munu lengi standa til bóta, enda er þetta nú í 4. skipti, sem ég stend að því með öðrum að bæta um þau.