14.04.1930
Neðri deild: 79. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2439 í B-deild Alþingistíðinda. (3279)

78. mál, áfengislög

Magnús Guðmundsson:

Þær ræður, sem haldnar hafa verið síðan ég talaði síðast, hafa ekki gefið mér tilefni til andsvara, en mér þótti það eftirtektarvert, að hv. 4. þm. Reykv. sagði áðan, að drykkjuskapur væri alltaf að aukast í landinu. Þetta sýnir, að það er ekki einhlítt að reyna með löggjöf að hafa áhrif á drykkjuskapinn í landinu. Það verður líka — og engu síður — að gerast með bindindisstarfsemi. Það varanlegasta verður að reyna að koma því inn hjá mönnunum sjálfum, að þeir eigi ekki að drekka sér til skaða og skammar. Menn geta alls ekki búizt við því, að hægt sé með lögum að útrýma drykkjuskap, meðan hugarfar margra er á þá leið, að þeir skeyta því engu, hvort þeir eru drukknir eða ekki. Það má ekki kenna yfirvöldunum um drykkjuskapinn, þegar almenningur er ekki lengra á veg kominn í þessu efni en raun er á. Við verðum því fyrst og fremst að leggja áherzlu á bindindisstarfsemina. Það er undarlegt, að það skuli koma fyrir á þingi eins og þessu, þar sem ekki er farið betur með féð en gert er, að deilt skuli vera um nokkur þús. kr. til bindindisstarfsemi.

Þau rök, sem hv. 2. þm. Árn. færði fyrir því, að drykkjuskapur væri að aukast í landinu, voru nokkuð vafasöm. Hv. þm. talaði í þessu sambandi um góðærið, sem við eigum við að búa, en hann hagaði orðum sínum svo varlega, að ekki var hægt að sjá, hvort hann áleit, að drykkjuskapurinn stafaði af góðærinu eða góðærið af drykkjuskapnum. Ég verð að segja, að ég er ekki viss um, að þetta tvennt hljóti að fara saman, en þegar menn eru af hæstv. stjórn beinlínis hvattir til að neyta áfengis sem mest, er von, að landsmenn telji það lýtalaust að fá sér í staupinu.