11.02.1930
Neðri deild: 21. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 3 í D-deild Alþingistíðinda. (3291)

23. mál, dýrtíðaruppbót

Fjmrh. (Einar Árnason):

Þessi till. er shlj. þáltill., sem afgr. var hér í þinginu í fyrra, um dýrtíðaruppbót á laun embættis- og starfsmanna ríkisins. Þá var ákveðið, að þó að vísitala hagstofunnar sýndi, að ekki ætti að greiða embættismönnum nema 34% dýrtíðaruppbót, yrðu þó greidd 40% árið 1929. Þetta þótti sanngjarnt vegna þess, að í raun og veru virtist, sem dýrtíðin hefði ekkert minnkað, þó að útreikningarnir virtust sýna það.

Nú reyndist svo við útreikninga hagstofunnar síðastl. haust, að dýrtíðaruppbótin verður 36%, aðeins hærri en árið áður, en þar sem fjárl. reikna með 40% dýrtíðaruppbót og þingið hafði ákveðið þetta síðastl. ár, sýndist sanngjarnt að halda áfram í sama horfi og var árið sem leið og árið þar á undan. Þess vegna er þessi till. flutt. Hún hefir gengið í gegnum Ed. og ekki sætt mótmælum, og var ekki einu sinni sett í n. Ég vildi mega vona, að till. mæti sömu viðtökum hér og fái greiðan gang gegnum þessa deild. Ég fyrir mitt leyti sé ekki sérstaka ástæðu til þess að leggja til, að till. fari í n.; það yrði aðeins til þess að tefja málið.