06.02.1930
Neðri deild: 16. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 20 í D-deild Alþingistíðinda. (3305)

37. mál, björgunar- og eftirlitsskip við Vestmannaeyjar

Gunnar Sigurðsson:

Enda þótt ég búist við því, að hugir manna stefni meira að öðru stærra máli en þessu, verð ég þó að kveðja mér hljóðs um þetta mál.

Ég hefi ávallt fylgt björgunarmáli Vestmannaeyinga með mjög miklum áhuga, ekki síður vegna þess, að ég var einn af þeim mönnum, sem börðust fyrir því, að þetta skip var upphaflega útvegað, og ég gerði það í alveg óeigingjörnum tilgangi, ásamt fleiri mönnum, sem fyrir því gengnst. Og ég vil ennfremur minna á það, að eftirmæli Þórs ættu að vera mjög merkileg, því að hér hefir stórfengleg breyt. orðið á strandvarnarmálunum við hans tilkomu, þar sem hann er fyrsta íslenzka varðskipið. En ég ætla ekki að fara að rekja þá sögu frekar, og ég ætla ekki heldur að fara að hlaupa í skörðin fyrir hv. flm. með því að fara að halda fram þörf Vestmannaeyinga, því að það er kunnugra en frá þurfi að segja, að þörfin er ekki einasta einföld, heldur þreföld, til að hafa skip þarna sem björgunarskip, eftirlitsskip og löggæzluskip.

Ég man það, að í þeirri miklu baráttu, sem stuðningsmenn Þórs áttu fyrst framan af fyrir tilveru hans, þá var það hæstv. dómsmrh., sem barðist af miklum dugnaði fyrir því máli, og ég vænti þess, að svo verði enn. Mér er svo kunnur dugnaður Vestmannaeyinga að fiskveiðum og harðfylgi þeirra sem sjómanna, að ekki væri rétt né sanngjarnt að taka af þeim þetta skip. Þetta mál tekur ekki aðeins til Vestmannaeyinga, heldur einnig Árnesinga og Rangæinga, sem senda þangað fjölda manna til fiskveiða. (LH: En Skaftfellingar?). Já, að Skaftfellingum ógleymdum. Ég tel það ekki einungis sanngirniskröfu fyrir Vestmannaeyinga að fá skip af líkri stærð og Þór var, heldur líka fyrir nálægar sýslur.

Það er líka frá fjárhagslegu sjónarmiði nauðsynlegt; Vestmannaeyingar leggja mikið í ríkissjóð og eiga því fulla sanngirniskröfu um vernd. En þeir eiga það einnig frá öðru sjónarmiði, sem ekki verður metið til peninga, en það er ef tillit er tekið til mannslífanna. hvað það muni geta kostað þá, ef ekkert sæmilegt skip er til varnar bátum. Þeir, sem kunnugir eru, vita, að það hefir um alllangt skeið verið mun harðari sjósókn þar en áður var, þó að mjög hafi úr dregið við það, að Þór fór. Ég er sammála hæstv. dómsmrh. um það, að ekki hafi mátt taka þau skip, sem við nú höfum til strandvarna annarsstaðar við landið, og þess vegna rétt að taka Hermóð til þessa starfa, þar sem bjargast má við hann, að mínu áliti. Án þess að mér sé kunnugt um það, að Hermóður sé ekki hæfur til þessa starfa, verð ég þó að taka hv. flm. trúanlegan, og er þá bezta leiðin, sem Alþingi getur farið í þessu máli, að kaupa skip, ekki mjög stórt, en sem ætti að geta nægt til þessa verks, og líka til þess að verja landhelgina þar í nánd. Eins og menn vita, eru þar mjög merkilegar klakstöðvar í grennd, sem nauðsynlegt er að vernda fyrir ófriði togaranna; þar er einnig nokkur útvegur, þótt smár sé, bæði úr Rangárvalla- og Skaftafellssýslu og munu þeir miklu frekar hætta sér út, er þeir vita af gæzluskipi nálægt, ef illa tekst til, enda fremur von að fá eitthvert bein úr sjó, ef landhelginnar er gætt þar.

Þetta er eitt af þeim málum, sem alls ekki á að vera flokksmál, en af því að mér fannst brydda á því, að ætlaði að koma hiti í málið, þá vildi ég gjarnan vera talsmaður þess, að það yrði ekki gert að flokksmáli, ekki að neinu illindamáli, til þess eins að hindra viturlegar framkvæmdir í því.