04.03.1930
Neðri deild: 43. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 41 í D-deild Alþingistíðinda. (3317)

37. mál, björgunar- og eftirlitsskip við Vestmannaeyjar

Frsm. meiri hl. (Jóhann Jósefsson):

Ég hafði búizt við einróma till. frá sjútvn. í þessu máli, og þó að svona færi, skal ég fyllilega viðurkenna alla þá vinsemd, sem fólgin er í ummælum minni hl. n. um málið. En ég tel mér á hinn bóginn skylt að benda á, að sumar umsagnir minni hl. eru dálítið villandi, eins og t. d. þar sem sagt er, að þessi till., sem hér er um að ræða, geti orðið til verulegs útgjaldaauka fyrir ríkissjóð. Vegna þess, að ég fór þar ekki fram á annað en framhald af starfsemi, sem áður hefir átt sér stað með sama skipulagi, þá getur ekki verið að tala um alveg nýjan útgjaldaauka.

Minni hl. talar um, að þörfin sé mest á yfirstandandi tíma, um vetrarvertíðina, á björgunarskipi við Vestmannaeyjar. Þetta var að vísu rétt á þeim tíma, sem till. kom fram, en nú er svo langur tími um liðinn, að það er í sjálfu sér ekki svo bráðnauðsynlegt, að samþ.till. um að hafa það ástand, sem er, sem sé, að Hermóður sé við Vestmannaeyjar til gæzlu í vetur. Því að þannig hefir þetta verið síðan í byrjun vertíðar. Og það er viðurkennt bæði af stj. og mér líka, að á því getur varla orðið nein breyt. í vetur, svo að till. minni hl. n., að láta við þetta sitja, er ekki nauðsynleg, úr því sem komið er.

Hinsvegar segir minni hl., að hann vilji gjarnan láta rannsaka þetta mál, hvernig gæzlu verði fyrir komið framvegis, og verður það að skiljast sem spor í áttina til skilnings á þörfinni fyrir björgunar- og eftirlitsskip; það er heldur ekki meira. — Ég skal svo ekki fjölyrða lengur um till. minni hl.

Meiri hl. hefir aftur á móti álitið, að nauðsyn væri, að tekin sé ákveðnari afstaða til málsins en minni hl. hefir séð sér fært. Og ég ætla, að þingið sé nú búið að sjá svo mikið af því ómetanlega gagni, sem er að björgunarstarfsemi, að það muni ekki hafa neinn sérstakan fyrirvara, sem málið geti strandað á.

Við fyrri hl. þessarar umr. urðu nokkrar deilur um það, hvort Vestmannaeyingar ættu réttmæta kröfu eða ekki til staðbundins gæzluskips við eyjarnar, eftir að Þór hafi strandað. Þessar deilur voru að vísu ekki almennar, en stóðu aðallega milli mín og hæstv. dómsmrh. Ég þóttist þá færa óyggjandi sannanir fyrir, að krafa Vestmannaeyinga væri fullkomlega réttmæt, og sé því ekki ástæðu til þess að draga þá hlið á þessu máli sem deiluefni inn í umr., enda hafa allir þeir þm., sem ég hefi átt tal við um þetta mál, látið það skorinort í ljós við mig, að hvað sem liði hinum lagalega rétti Vestmannaeyinga til staðbundins björgunar- og eftirlitsskips við eyjarnar, væri sjálfsagt að líta á sanngirnishliðina á þessu máli, og það er hið sama sem að segja, að sjálfsagt sé að halda þessari starfsemi áfram, eftir því sem tök eru á; og alls ekki lakari en áður hefir verið.

Auk þess er á það að líta, að undir aðgerðum þingsins í þessu máli eiga fleiri en Vestmannaeyingar einir, því að það snertir fjölda sjómanna víðsvegar að af landinu. Tala ég ekki síður þeirra máli en Vestmannaeyinga.

Með brtt. meiri hl. er engu slegið föstu um það, hvort kaupa eigi eða láta byggja nýtt skip til þessa starfa, eða framkvæma gæzluna með núverandi skipum ríkissj., þó að ég sé þeirrar skoðunar, að fá þurfi nýtt skip. Það ber ekki að skilja till. svo, að hún beinlínis fari fram á, að nýtt skip verði byggt í þessu skyni, heldur er með till. tekið undir þær óskir, sem fram hafa komið frá Vestmannaeyingum til Alþingis í tilefni af strandi Þórs og því ástandi, sem það skapaði. Nái till. samþykki þingsins, eins og ég vona fastlega að verði, hefir þingið tekið undir þessar óskir og lýst yfir fylgi sínu við þessa starfsemi í framtíðinni.

Ég sé ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum nú, enda gerði ég ítarlega grein fyrir þessu máli við fyrri hl. þessarar umr. Ég vil þó geta þess, að þótt ég telji till. hv. minni hl. sjútvn. ekki beinlínis óvingjarnlegar, eru þær þó út í bláinn að því er það snertir að láta ástandið, sem nú er, haldast í vetur, og hníga yfirleitt í þá átt, að víkja því málefni til hliðar, sem mér er efst í huga og þeim öðrum, sem áhuga hafa fyrir því, að björgunar- og eftirlitsstarfið verði tryggt í framtíðinni.

Ég vona því, að hv. deild geti fallizt á þær till., sem meiri hl. sjútvn. hefir leyft sér að bera fram á þskj. 162.