04.03.1930
Neðri deild: 43. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 43 í D-deild Alþingistíðinda. (3318)

37. mál, björgunar- og eftirlitsskip við Vestmannaeyjar

Frsm. minni hl. (Ásgeir Ásgeirsson):

Það má með sanni segja, að ekki sé ýkjamikill munur á till. meiri og minni hl. sjútvn. í þessu máli, nema hvað minni hl. n. leggur sérstaka áherzlu á, að rannsakað verði, á hvern hátt bezt megi samrýma gæzluna við Vestmannaeyjar öðrum skyldum þörfum ríkisins.

Kostnaðurinn við landhelgisvarnirnar er orðinn svo mikill, og skipastóllinn, sem til þeirra þarf, svo stór, að full ástæða er til að taka það mál í heild sinni til athugunar. Mér er ekki kunnugt um, að fram hafi farið svo ítarleg rannsókn sem skyldi um það, hvernig landhelgisgæslunni verði sem haganlegast fyrir komið, hvernig hafa megi sem mest not af þeim skipastól, sem að gæzlunni starfar, hversu mörg stór skip sé hentugt að hafa til gæzlunnar og hversu mörg smærri skip og ódýrari.

Þegar um það er að ræða að bæta Vestmannaeyingum það tjón, sem þeir hafa orðið fyrir út af strandi Þórs, er sjálfsagt í því sambandi að athuga landhelgisvarnirnar í heild sinni. Ríkið hefir fyrir ýmsum þörfum að sjá, skyldum landhelgisgæzlunni. Það þarf að sjá um flutning á efni fyrir vita og síma, og virðist því ekki nema eðlilegt, að tilraun sé gerð til þess að samrýma þessar hinar ýmsu þarfir. Það skip, sem nú er notazt við til björgunar- og eftirlitsstarfsemi við Vestmannaeyjar — Hermóður —, er hvorki hentugt til þess né heldur hins, sem það hingað til hefir verið notað til, sem er flutningur á efni fyrir síma og vita. Mér dettur því í hug, að lausnin á þessu máli, sem hér er um að ræða, gæti einmitt orðið sú, að selja Hermóð og kaupa síðan nýtt skip, sem fullnægði hvorumtveggja þessum þörfum, sem ég nefndi.

Það liggur auk þess í augum uppi, að sjálfsagt er að taka landhelgisgæzluna í heild sinni til athugunar. Kostnaðurinn við hana er orðinn svo mikill, að ekki má renna blint í sjóinn með að byggja nú enn eitt nýtt skip, eins og sumir virðast telja sjálfsagt, án þess að heildarákvörðun sé tekin um það, hvernig landhelgisgæzlunni verði svo hagað, að hún í senn verði sem gagnsamlegust og ódýrust fyrir þjóðina. Ég er ekki í neinum vafa um það, að hægt er að hafa mikil not af smærri og ódýrari skipum við landhelgisgæzluna en nú eru notuð. Þau geta að vísu ekki tekið togara, sem væru á ólöglegum veiðum, en þau geta rekið úr túninu, eins og búrtíkur gera til sveita. Það hagar víða svo til, að hægt er að verja landhelgina með þessu móti, og tel ég því sjálfsagt, að haldið verði þeirri ódýru aðferð þar, sem hún á við. Þann veg verður landhelgisgæzlan miklum mun ódýrari, en þó jafnframt fullkomnari. Hinum stærri skipum verður ekki alstaðar við komið. En þeirra verður að sjálfsögðu að njóta við um landhelgisgæzluna eftir sem áður, og leggja þeim þá og þar í sjó, sem hinum smærri skipum er ofviða að kljúfa hrannirnar.

Till. okkar í minni hl. sjútvn. byggjast á því, að það ástand, sem nú er um eftirlitið við Vestmannaeyjar, haldist í vetur, og að ríkisstj. sjái svo um, að svo verði aðra vertíð í viðbót, ef ekki verða gerðar ráðstafanir í aðra átt. En aðaltill. okkar er sú, að rannsakað verði, á hvern hátt megi samrýma skyldur ríkisins og þarfir landsmanna í þessu máli á sem haganlegastan og ódýrastan hátt.