04.03.1930
Neðri deild: 43. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 50 í D-deild Alþingistíðinda. (3322)

37. mál, björgunar- og eftirlitsskip við Vestmannaeyjar

Gunnar Sigurðsson:

Ég er einn þeirra manna, sem fylgi því fast með meiri hl., að Vestmannaeyingar eigi heimting á að fá ekki verra skip en Þór og að ríkið láti a. m. k. vátryggingarféð af hendi. Þegar menn víðsvegar um land gáfu fé til kaupa á Þór, þá gerðu þeir það að skilyrði, að skipið yrði við Eyjar og annaðist þar gæzluna.

Við vitum það allir, að innan þess sviðs, sem skipið hefir gæzlu á, eru hrygningarsvæðin og þau eru svo dýrmæt okkur, að við verðum að varðveita þau vel.

Þar sem hv. 1. þm. Skagf. hefir lýst yfir því, að samningurinn væri enn í gildi, og þar sem ríkið varð fyrir því óhappi að senda skipið í þessa síðustu ferð, þá ber því skylda til að sjá Vestmannaeyingum fyrir nýju skipi, eða að láta vátryggingarféð a. m. k. af hendi. Ég vil vekja athygli á því, að Árnesingar og Rangæingar eiga hér líka hlut að máli, og vænti ég þess fastlega, að þm. þeirra kjördæma veiti máli þessu óskipt fylgi sitt.