04.03.1930
Neðri deild: 43. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 51 í D-deild Alþingistíðinda. (3323)

37. mál, björgunar- og eftirlitsskip við Vestmannaeyjar

Frsm. minni hl. (Ásgeir Ásgeirsson):

Ég skal aðeins svara fáu af því, sem sagt hefir verið nú við þessa umr.

Í áliti okkar, sem erum í minni hl., er gengið út frá því, að samningurinn við Vestmannaeyinga sé ekki í gildi, og þegar talað er um anda hans, en ekki orðalag, þá hygg ég, að það myndi léttvægt fyrir dómstólum. Slíkur samningur sem þessi byggist auðvitað á þörfinni, en þar sem það er nú viðurkennt af þeim, sem helzt mæla honum bót, að orðalag hans er mjög vafasamt, þá hygg ég það ekki vafasamt, að hann muni úr gildi fallinn. Mér finnst það hæpið hjá hv. þm. Dal., er hann talar um, að samningurinn innifeli í sér kvöð á hendur ríkinu til að hafa gæzlu í 15 ár. Slíkar fullyrðingar eru gripnar úr lausu lofti, enda mun enginn geta sagt um, hversu lengi skip getur enzt, en það eitt er víst, að engum getur lengur dulizt, að úr því Þór er strandaður, þá er hann ekki lengur fær til þessarar gæzlu.

Við minnihlutamenn viljum ekki ganga á nein gefin loforð eða svíkja neina samninga. Hið eina, sem við biðjum um, er ítarleg athugun þessa máls, og þegar því hefir verið margsinnis lýst yfir, að gæzlan sé nú nægileg, hygg ég, að ekki séu hundrað í hættunni, þótt málið verði yfirvegað. Hinsvegar sé ég ekkert á móti því, að Hermóður yrði seldur, þótt ég telji víst, að hann geti sinnt gæzlunni næsta vetur, nema kannske tvo fyrstu mánuðina, en þá getur Óðinn eða Ægir verið honum til aðstoðar.

Hitt fæ ég ekki skilið, að kapp hv. þm. Vestm. í þessu máli eigi að vera þyngra á metunum en skynsamleg íhugun á þörfum þegnanna og gjaldþoli ríkisins. Ástandið var orðið óbærilegt nú á síðustu árum, því að til útgerðar Þórs var árlega varið 200 þús. kr., og er það ekki lítill baggi fyrir ríkissjóð.

Ég hygg, að Vestmannaeyingar og aðrir megi vera ánægðir, ef þetta mál verður rannsakað nákvæmlega og það síðan leyst á þann hátt, sem beztur finnst.