10.04.1930
Neðri deild: 76. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 59 í D-deild Alþingistíðinda. (3333)

363. mál, lækkun vaxta

Magnús Jónsson:

* Eins og bent hefir verið á, eru til tveir aðiljar, sem hægt er að beina til tilmælum um lækkuð vaxtakjör. Annar er stjórnin, en hinn — og það er aðalaðilinn — er bankaráð Landsbankans, sem ræður vöxtum. Ég hefi nú í þetta skipti verið svo skamma hríð í bankaráði Landsbankans, að ég hefi ekki getað sett mig inn í þetta mál þar. En ég er þó svo kunnugur þessum málum, að ég sé þegar, að mikil missmíði eru á þáltill. hv. 2. þm. Rang. Til þess að sjá það, þarf ekki annað en að líta á greinargerðina. Allir eru sammála um það, að háir vextir séu ekki hagkvæmir fyrir atvinnulífið. En vextir verða að ákveðast af fjármálaástandi hvers lands, og lágir vextir geta líka orðið að böli. Það væri barnaskapur, ef menn héldu t. d., að bankastjórar í Englandsbanka gerðu það af bölvun sinni að hækka forvextina, þegar þeir gera það. Þeir gera það auðvitað af því, að þeir álíta, að peningaástandið réttlæti og heimti þetta. Þessa tók hv. flm. ekki tillit til, þegar hann var að bera saman vexti í erlendum seðlabönkum og vexti hér heima. (GunnS: Er þar enginn munur á?) Jú, það er munur, en hann er eðlilegur. Hann sagði, að hér væri um hliðstæða banka að ræða. (GunnS: Þjóðbanka). Það er ekkert nema fjarstæða, að kalla þjóðbanka vorn hliðstæðan Englandsbanka. Englandsbanki skiptir eingöngu við aðra banka, og jafnvel þeir bankar standa ekki í sambandi við viðskiptalífið, heldur skipta þeir við enn aðra banka, sem síðan lána fyrirtækjum og einstaklingum. Seðlavextir Englandsbanka eru langtum lægri en almennir vextir.

Landsbankinn er hinsvegar eini bankinn hér á landi. Jafnvel á meðan Íslandsbanki starfaði, var Landsbankinn aðalviðskiptabanki landsins. Það þýðir ekki að hanga í því, að Landsbankinn sé þjóðbanki. Hann er hliðstæður almennum viðskiptabönkum erlendis, og vextir þeirra hafa ekki lækkað neitt svipað og vextir seðlabankanna. Við getum búizt við því að verða í mannsaldur að sætta okkur við hærri vexti en gerast í Englandi. Það er eins með peninga sem aðra vöru, að verð á þeim fer eftir framboði og eftirspurn. Þegar fjör er í atvinnulífinu og fyrirtækin leita að peningunum, þar hækka þeir í verði, en þar, sem peningarnir leita að fyrirtækjunum, verður hið gagnstæða uppi á teningunum. Af þessu stafa háir og lágir vextir.

Mér virtist hæstv. dómsmrh. gera allt of mikið úr þeim áhrifum, sem töp bankanna hefðu haft á vaxtahækkunina, þótt auðvitað séu þau atriði í málinu. Atvinnuvegir vorir eru áhættusamir, og togaraútgerð og verksmiðjuiðnaður eru ekki sambærilegar atvinnugreinir hvað áhættu snertir. Ástæðan til hinna háu vaxta er öllu fremur sú, að landið er fátækt land, þar sem atvinnuvegirnir eru í uppsiglingu. Menn verða að starfa með dýru erlendu fé, en hafa litlu innlendu fé yfir að ráða. Landið hefir ekki enn komizt inn á peningamarkaðinn, svo að viðunandi sé, vegna fátæktar sinnar og vanþekkingar erlendra fjármálamanna á því, og hefir því orðið að greiða mun hærri vexti af lánum sínum heldur en nágrannaþjóðirnar.

Eftir þessar almennu hugleiðingar sný ég mér að sjálfri þáltill. Hv. flm. ruglaði í sífellu saman stj. og bankaráðinu. Hann sagði ýmist, að óverjandi væri af stj. að lækka ekki vextina, eða þá að skipta þyrfti um bankaráð til þess. (GunnS: Ráða ekki báðir þessir aðiljar nokkru?). Síðan heimtar hann, að bankaráðið lækki vextina og stj. taki lán í því skyni. Það er satt, að hið eina, sem hægt er að gera í þessu efni, er að taka lán til að auka starfsféð, en stj. verður að gera upp við sig, hvort hún vill fara þá leið, og því verður hún að svara. En síðan snýr hann sér að þjóðbankanum og segir, að ófyrirgefanlegt sé, að hann hafi ekki þegar lækkað vextina, — án þess að nokkurt starfsfé kæmi! Slík er rökfestan hjá hv. flm.

Bankaráðið álítur ekki, að þær ástæður liggi fyrir hendi, sem réttlæti lækkun vaxta. Hvaða ástæður verða nú yfirleitt að vera til þess, að vextir lækki? Til þess þarf að vera kominn óhugur í atvinnurekendur og deyfð í atvinnulífið, verksmiðjur leggjast niður o. s. frv., svo að peningar hrúgist upp hjá lánsstofnunum. Þetta eru frumástæðurnar til vaxtalækkunar í fjármálaheiminum.

Það er eins um peningamarkaðinn og sjúkling, sem hefir legið með miklum hita. Þegar sóttin er í rénun, fellur hitinn niður fyrir eðlilegan líkamshita. Þannig er um peningamarkaðinn. Þegar los og ógengd er í fjármálum, hækka bankarnir vexti sína til þess að reyna að hafa hemil á markaðinum. En þegar hrunið er skollið á og gengið yfir, verða seðlabankarnir að lækka vexti til þess að laða aðra banka til þess að styrkja viðskiptalífið og hjálpa fyrirtækjum, sem standa höllum fæti. En viðskiptabankar í öðrum löndum hafa ekki fylgt seðlabönkunum um lækkun vaxta. Það mun stj. sanna, ef hún fer að leita eftir lánum, að hún gengur ekki beint að 3% lánum, heldur verður hún að leita á hinn almenna peningamarkað og sætta sig við 6–6½%, því að hinir örlágu vextir seðlabankanna eru sjúkleikaástand.

Ég skal játa, að það var yfirsjón, hafi bankarnir borið það fyrir sig í haust, þegar þeir hækkuðu vextina, að hækkunin stafaði af vaxtahækkun erlendis. Þá var eðlilegt, að menn byggjust við lækkun aftur, þegar erlendir bankar lækkuðu. En hækkunin mun hafa stafað af því, að peningar voru of ódýrir hér. Nú er svo ástatt, að allt er í fullum gangi, öll fyrirtæki í háspennu, eins og stundum vill verða, þegar er að leiða til hruns á peningamarkaðinum. Nú er setið um hvern eyri, sem bankarnir geta látið frá sér, fyrir þessa háu vexti. Ég skal sem dæmi benda á 9. flokk veðdeildarinnar. Flokkurinn á að fara að byrja, og fjöldi manna, sem hafa byggt hús fyrir stutt og dýr lán, bíður eftir veðdeildarlánum. Hvað stendur þá í vegi. Ekki annað en það, að peninga vantar til að kaupa bréfin. Landsbankinn ætti eðlilega að kaupa þau, en hefir nú ekki fé til þess. (MG: Hví ekki að fá fé til þess erlendis?). Það hefir verið reynt, en ekki borið árangur, því að fé er ekki svo laust fyrir erlendis né vextir svo lágir sem sagt hefir verið. Það munu einnig verða gerðar frekari tilraunir til þess að selja bréfin erlendis, — en hver á að kaupa þau á meðan? Ég teldi rétt, að Landsbankinn reyndi að kaupa bréfin fyrir þá peninga, sem hann hefir handbæra, heldur en að lækka vextina.

Það er handhægt og freistandi að slá sér fylgi á því að heimta vaxtalækkun, en það er ekki rétt gert af þeim mönnum, sem ætla má, að hafi það vit á peningamálum að skilja, að vextir skapast af ástandinu. Hér er lítið fé handbært, en allt í háspennu. Engum fjármálamanni í nokkru landi mundi koma til hugar, að hér lægi fyrir tilefni til vaxtalækkunar. Landsbankinn er nú sem stendur eini starfandi bankinn, en í ráði að stofna 2 nýja banka. Útvegsbankann og Landbúnaðarbankann. Hve mikið fé bætist á markaðinn með stofnun þessara banka, er alveg óvíst. Hlutafé ríkissjóðs í Útvegsbankanum, 3 millj. kr., eykur ekkert starfsfé bankans, því að enska lánið verður látið ganga upp í það. Hitt hlutaféð, 1½ millj. kr., mun ganga í innheimtur og fljótt hverfa. Landbúnaðarbankinn á að hafa sparisjóðsdeild með ríkisábyrgð, og er hætt við, að hún dragi frá sparisjóði Landsbankans; verður Landsbankinn því að hafa nánar gætur á, að sparisjóðsfé hans þverri ekki. Með alla þessa óvissu á peningamarkaðinum og atvinnulífið í háspennu fyndist mér harla einkennileg ráðstöfun, ef bankaráðið færi nú að lækka vextina að öðru óbreyttu.

Það er eðlilegt, að þeir, sem ætluðu vaxtahækkunina stafa af hækkuninni erlendis, búist við, að auðvelt sé að lækka vextina aftur, þegar vextir lækka erlendis. En menn mega ekki bera of mjög saman vaxtakjör hér og erlendis. Landsbankinn starfar að svo litlu leyti með erlendu fé, að hann munar litlu, þó að vextir lækki í öðrum löndum. Það er einungis þegar bankar kæra sig ekki um að draga að sér starfsfé og vilja örva atvinnulífið og hvetja menn til athafna, að þeir lækka vexti. Ég leyfi mér að spyrja hv. flm., hvort þær ástæður liggi fyrir nú.