10.04.1930
Neðri deild: 76. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 63 í D-deild Alþingistíðinda. (3334)

363. mál, lækkun vaxta

Magnús Guðmundsson:

Ég skal ekki vera margorður. Hv. flm. hefir talað, hæstv. stj. hefir talað og Landsbankinn hefir talað. Og það er auðséð af undirtektum hæstv. dómsmrh. og bankaráðsmannsins, hv. 1. þm. Reykv., að ekki blæs byrlega fyrir vaxtalækkun.

Mér virtist á undirtektum hæstv. dómsmrh., að hann áliti, að stj. gæti ekkert gert; það væru önnur öfl, sem réðu, og valdið auk þess hjá bankaráði Landsbankans. Þótt þetta geti allt verið rétt, þá er þó a. m. k. eitt atriði í þessu máli, sem ég fæ ekki skilið, og það er, hvers vegna vextir hækkuðu hér á landi um leið og vaxtahækkun varð erlendis, en lækkuðu hér miklu minna en hækkuninni nam, þegar lækkunin varð erlendis, þó að vaxtalækkunin þar yrði miklu meiri en hækkunin, sem á undan var gengin. Ég fæ ekki skilið, að neitt hafi gerzt í atvinnulífinu hér á landi síðastl. ár, er gæti réttlætt vaxtahækkun. Árið var eitt hið bezta, sem komið hefir yfir þetta land, og það þarf áreiðanlega að gefa skýring á þessari ½% hækkun, sem varð á árinu. Ég skal viðurkenna, að það er rétt hjá hv. 1. þm. Reykv., að mikil eftirspurn er eftir veltufé og allt í háspennu. Það kemur af framfarahug þjóðarinnar á síðastl. 10 árum, og er að því leyti gott og gleðilegt. Ég viðurkenni ennfremur, að peningar verða að lúta almennum verzlunarlögum, að sú vara hækkar í verði, sem mikil eftirspurn er eftir. En ég fæ ekki skilið, að bankarnir hafi þurft að hækka vexti síðastl. ár, eins og árferði var þá, því að ég sé ekki, að eftirspurn eftir fé hafi aukizt. Það hefir orðið gróði á atvinnuvegunum og fé runnið af þeim ástæðum inn í landið; virðist því starfsfé hafa frekar aukizt en minnkað.

Hæstv. dómsmrh. talaði um, að töp bankanna yllu miklu um hækkun vaxtanna. Ég viðurkenni, að þetta kann að hafa haft einhver áhrif, en hitt er rangt, að fé það, sem bankarnir hafa tapað, hafi orðið að engu. Því fer fjarri. Þegar bankar lána mönnum fé, og þeir geta ekki staðið í skilum, þá verður þó eitthvað af peningunum. Þeir hverfa að jafnaði ekki út úr landinu, heldur hafa vasaskipti innanlands. Hlutverk bankanna er að jafna, nota góðærin til þess að standast töp vondu áranna. Þó er það rétt, að töpin á árinu 1919 og verðfall íslenzkra afurða árið eftir varð svo gífurlegt, að bönkunum veitist erfitt að vinna það upp.

Ég verð að segja, að mér fannst hv. 1. þm. Reykv. taka till. óþarflega afundið, jafnvel þó að litið sé á hann sem bankaráðsmann. Mér finnst það vera minnsta krafa á hendur þjóðbankanum, að hann skýri nauðsynina á því, að vextirnir voru hækkaðir, eða hvers vegna lækkunin nam ekki eins miklu og hækkunin, úr því að það var þó borið fyrir, að hækkunin stafaði af hækkuninni á erlenda markaðinum.

Það er rétt hjá hv. 1. þm. Reykv., að óvissan, sem nú er í bankamálum, getur haft mikil áhrif nú sem stendur. En engin óvissa var, þegar vextirnir voru hækkaðir, því að þá óraði engan fyrir, að Íslandsbanki myndi fara um koll. Það er ekki verið að heimta, að vextir séu lækkaðir meðan nýi bankinn er ekki opnaður, en það er sanngjarnt, að vextir verði færðir í það horf, sem þeir voru fyrir hækkunina síðastl. haust.

Hæstv. dómsmrh. gerði mikið úr því, að með breytingunni á Landsbankalögunum 1928 hefðu afskipti af svona málum verið dregin úr höndum stj. gagnvart Landsbankanum. Ég get ekki gert svo mikið úr þessu, því að þrátt fyrir þetta hefir stj. svo mikil áhrif á Landsbankann, þar sem hún ræður meiri hl. bankaráðsins, að hún getur knúð fram það sem hún vill. Ég hygg, að afstaða stj. sé engu verri nú en áður, því að Landsbankinn hefir frá upphafi verið tiltölulega sjálfstæð stofnun og stj. ekki áður haft meira vald yfir bankanum en nú.

Ég segi því fyrir mig, að ég mun ekki sjá mér fært að greiða atkv. gegn till. Ég sé ekki ástæðu til þess að vera á móti því að skora á stj. að reyna að koma þessu til leiðar. Hún gerir það, ef hún getur; geti hún það ekki, gerir till. engan skaða.

Ég vænti þess, að hv. 1. þm. Reykv., ef hann tekur aftur til máls, gefi einhverja skýring á því, hvers vegna vextirnir lækkuðu ekki eins mikið og hækkuninni nam, þar sem hækkunin. var rökstudd með hækkuninni erlendis.