10.04.1930
Neðri deild: 76. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 76 í D-deild Alþingistíðinda. (3342)

363. mál, lækkun vaxta

Sveinn Ólafsson:

Mér þykir rétt í þessu máli að gera grein fyrir atkv. mínu.

Ég kannast fyllilega við góðan tilgang hv. flm. með að koma fram með þessa till., en ég verð að viðurkenna það, sem kom einnig fram hjá mörgum hv. þdm., að fyrst og fremst eru ástæðurnar fyrir því, að vextir eru svo háir nú, þær, að við erum ekki herrar yfir þeim í bili, en í öðru lagi er sá aðili, sem til er snúið, alls ekki einráður um framkvæmdir í þessu efni. Hann er svo fjarri því að vera einráður, að hann hefir sama sem engin ráð. Nú mætti segja að vísu, að það væri saklaust, þótt till. yrði samþ., það gæti ekkert orðið verra fyrir það. Nei, að vísu ekki, en þó myndi með samþykkt þessarar till. vera vaktar tyllivonir, og þá er verr farið en heima setið. Ég vil nú ekki vera að taka upp þær ástæður, sem fram hafa komið gegn till., það er ástæðulaust, en ég vildi gera grein fyrir mínu atkv. Ég mun sitja hjá. Ég vil ekki með mótatkv. lýsa því yfir, að ég sé mótfallinn þessari hugmynd, en af því að ég veit, að samþykkt hennar þýðir ekkert annað en tyllivon, mun ég ekki greiða henni atkv.