10.04.1930
Neðri deild: 76. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 77 í D-deild Alþingistíðinda. (3344)

363. mál, lækkun vaxta

Benedikt Sveinsson:

Ég skal ekki lengja ræður, en verð eins og fleiri hv. dm. að gera grein fyrir atkv. mínu.

Mér hefir satt að segja þótt mjög einkennilegur hreimur í rödd og ræðu sumra hv. þm., sem verið hafa að tala um þetta bankamál. Það er eins og þessir menn hér séu háskólalærðir auðvalds-prófessorar, sem séu að breiða einhvern fegurðarhjúp og glæsiblæju auðvaldsins yfir þessar peningastofnanir hér á Íslandi og í öðrum löndum. Þeir gera þetta auðvald að nokkurskonar forsjón heimsins, og hyggja hækkun og lækkun vaxta ekki stafa af öðru en daglegri umhyggju auðvaldsins fyrir hag þjóðanna. Þeir hyggja, að þetta auðvald hnitmiði vöxtuna í hvert skipti til þess að halda atvinnuvegum þjóðanna í rólegum og föstum skorðum. En þetta er sjálfsblekking. Það verður allt annað lögmál, sem ræður um hækkun og lækkun vaxta í heiminum, en þetta.

Það kom fram í umr., að vextir væru hækkaðir í því skyni að draga úr of miklu braski í góðærinu, en þegar deyfð væri í atvinnurekstri, þá væru vextir lækkaðir til þess að rétta við aftur hag landanna. Ég sé ekki annað en að þesskonar vaxtabreyting sé bein afleiðing allt annarar ástæðu, — þeirrar, að auðvaldið reynir ávallt að koma út þeim peningum, sem það getur, í hvert sinn með sem hæstum vöxtum. Það er eðlilegt, að þegar fjör er í atvinnuvegunum, þá geta okrararnir komið út peningum sínum fyrir miklu hærra verð, en þegar deyfð er yfir, þá koma peningarnir til þeirra sjálfra; atvinnurekendur geta ekki ávaxtað þá jafnhátt og áður, svo að auðvaldið verður að bjóða betri kosti til þess að koma út fé sínu. Þetta er ekkert annað en hið alþekkta lögmál um áhrif framboðs og fölunar (eftirspurnar) á verðlagi sérhverrar vöru. — Fisksalinn hérna getur t. d. selt fiskinn sinn miklu dýrara um hásumarið, þegar þúsundir ferðamanna eru komnar í bæinn og allir spyrja eftir nýrri ýsu, nýjum kola eða heilagfiski, heldur en þá tíma ársins, sem fátt er í bænum og eftirspurn vörunnar lítil eða engin. Það ræður alveg sama lögmálið hjá bönkunum og í fisksölunni; þeir pranga með peningana eftir því, sem þörfin knýr almenning fast að leita eftir þeim. Þegar deyfð er í atvinnurekstri, kæra menn sig ekki um peninga, þegar atvinna blómgast og menn geta grætt á því að hafa peninga í höndunum, sækjast menn eftir þeim, og hinir nota sér það og okra alveg eins og fisksalarnir, þegar Reykjavíkurbær er svangur.

Hv. þm. Mýr. sagði, að Landsbankinn hefði glöggt auga fyrir því, hvað vextir ættu að vera háir. Jú, ef hann heyrir, að bankar í Bretlandi hafa hækkað vexti, þá hækkar hann undir eins. En þegar menn tala um, að Englandsbanki hafi lækkað vexti, — ja, þá er hann ekki eins fljótur á sér, þá er viðkvæðið: Við höfum ekki þesskonar viðskipti í Englandi, að okkur komi það við, þótt þeir lækki vexti þar suður í löndum. — Það er aðeins hækkun vaxta erlendis, sem snertir banka vor Íslendinga.

Okkur kemur það alltaf við, þegar vextir hækka annaðhvort í Englandi eða í New York.

Sami hv. þm. sagði, að bankinn hefði ekki grætt á háu vöxtunum. Það er rétt að nokkru leyti. Hann gat ekki grætt á háum vöxtum eingöngu, þegar skuldunautar gátu ekki staðið í skilum með þá. Bankarnir tryggja ekki hag sinn til hlítar með háum vöxtum. En það er annað, sem átti að halda ógætilegum lánveitingum í skefjum, svo að bankarnir þyrftu ekki að tapa. Það eru sæmilegar tryggingar fyrir lánum einstakra manna og stofnana. Með því einu er hægt að afstýra því, að menn reisi sér um of hurðarás um öxl og firra bankana tjóni.

Það er undarlegt, þegar hv. þm. segir, að það sé skaði fyrir atvinnuvegina að fá lán með lágum vöxtum. (BÁ: Hvenær sagði ég það?). Hv. þm. sagði í ræðu sinni áðan, að það gæti orðið skaðlegt fyrir þjóðfélagið, ef vextirnir væru of lágir. Það gæti komið mönnum til að taka of mikið fé að láni til vitlausra fyrirtækja. En ef bankastj. lánar með skynsemd, þá er sannarlega ábati áð fá peninga með lágu verði fremur en háu. Bankinn hefir ekki grætt á háum vöxtum, það er satt. En peningagræðgin hefir valdið því. Þegar bankastjórarnir sáu þessa háu vexti eins og gullhnjúka kringum sig, þá stóðust þeir ekki nema lána meira og meira, en gleymdu tryggingunum vegna ágirndar. Því er það alveg rétt, að reynslan hefir sýnt, að þeir töpuðu á háu vöxtunum. Það má auðvitað drepa fyrirtæki með því að hafa vextina svo háa, að þau hljóti að fara á hausinn, og þess eru víst mörg dæmi hér á landi.

Menn krossa sig á bak og brjóst og segja: Ég vil gjarnan hafa lægri vexti, en þó í hófi og undir forsjón bankans, en ég vil hvergi koma nærri því máli. Hv. 1. þm. S.-M. sagði, að þetta mundi valda tyllivonum. En það þarf engin tyllivon að verða, ef Alþingi fylgir því fram að hafa vextina sem lægsta í landinu.

Þó að menn tali um, að bankaráðið hafi „suverænitet“, er það ekki nema fyrirsláttur. Ég gef ekki mikið fyrir fullveldi vort Íslendinga, ef það er „suverænitet“ á borð við bankaráðsins. Vér höfum áður haft „bankaráð“, og varð heldur snöggt um það. Að vísu hafa „bankaráðsmenn.“ stundum farsællega skolazt upp í aðrar fleytur og sumir komizt á fast land og liðið þá betur en áður. En ég fæ ekki skilið, að „bankaráð“ sé orðið svo hátt og heilagt, að ekki megi Alþingi láta í ljós óskir sínar um vaxtatöku í peningabúðum þeim, er það hefir stofnsett.

Í sambandi við þá óttablöndnu virðing, er fram hefir komið fyrir þessari valdstofnun, dettur mér í hug hjátrúin gamla, er ekki mátti nefna nafn sumra dýra á sjó, svo sem hross, hund, svín o. fl. Það var óttinn við hrosshveli, búrhveli, náhveli, sem þessu olli. Er til gömul varúðarvísa um þetta efni, er endar svo:

Nautið ekki nefna má

nokkur maður sjónum á.

Kvað svo rammt að þessum geig, að skíra varð upp ýmsa staði, svo sem Svíney og Svínhóla, er nú nefnast Purkey og Purkhólar. — Það virðist vera ríkjandi samskonar trúhneigð gagnvart þeim varasömu vættum, sem varða fjársjóðu þá, er bankinn hefir yfir að ráða.