10.04.1930
Neðri deild: 76. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 80 í D-deild Alþingistíðinda. (3345)

363. mál, lækkun vaxta

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Mig langar til að gera grein fyrir atkv. mínu. Mér virðist að vísu till. ekki vera formleg. (GunnS: Hún er eins og till. hæstv. forsrh. áður). Hún var formleg þá, en ekki nú, því að síðan hefir valdið um að ákveða vaxtahæðina komið undir bankaráð Landsbankans, og hér er aðallega um þann banka að ræða, þar sem hann sem seðlabanki hlýtur að hafa forustuna. Þó að ég líti þannig á till., vil ég engu að síður taka þátt í, að vilji deildarinnar komi fram í þessu máli í samræmi við meginefni till. Mín skoðun er, að vöxtunum sé haldið óþarflega háum og ranglátlega fyrir atvinnuvegina. Þó að þingið hafi falið bankaráðinu þetta vald í hendur, vil ég, að deildin láti í ljós þá skoðun sína, að vextirnir séu of háir, og ég vona, að það verði nægur þungi til þess að knýja bankaráðið til að láta undan kröfunni. Og því óska ég eftir sem öruggustum meiri hl. með till.