10.04.1930
Neðri deild: 76. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 81 í D-deild Alþingistíðinda. (3346)

363. mál, lækkun vaxta

Flm. (Gunnar Sigurðsson):

Ég vil svara hv. 1. þm. Reykv. (MJ: Ég er margdauður). Já, enda skal ég verða mjög vægur. Hann sagði, að ég hefði ruglað saman lækkun vaxta við gengisástandið sjálft. Ég hefi engu ruglað saman. Ég sagði, að vextirnir væru ranglátir og óþarflega háir eins og væri. Og ég benti á, að ráðið væri fyrst og fremst að afla lána á peningamarkaðinum. Það er vissa fyrir því, að nú á þessu hátíðarári verður hægara en áður að vekja eftirtekt á Íslendingum og að fá lán.

Hv. 1. þm. Reykv. drap á, að Búnaðarbankinn hefði verið styrktur til þess að halda vöxtunum niðri. En hann getur ekki haft svo lága vexti í framtíðinni, ef þjóðbankinn hefir þá miklu hærri.

Hv. þm. Mýr. og Búnaðarbankans (BÁ) talaði um, að till. væri formleysa. En árið 1927 báru margir góðir flokksmenn hans, svo sem hæstv. núv. forsrh. og hv. 2. þm. Árn., fram till. sama efnis. Þó er vaxtamunurinn hér og erlendis enn meiri nú. (MG: Rétt). Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir það, að hann stendur við það, sem hann sagði þá, og vona, að hann leggist með þunga á okkar sveif. Hitt er ég honum ekki sammála um, að þessi gamla till. hans sé nú ekki formleg, a. m. k. ekki eins og ég hefi skýrt hana.

Ég sagði, að landsstj. gæti kannske engu um þokað við bankastjórn og bankaráð; það getur verið, að þeir háu herrar virði þing og stjórn að vettugi. En það tel ég ósanngjarnt og óverjandi. Og þá er ráðið þetta, eins og ég er búinn að segja tvisvar sinnum áður: Þing og stjórn eiga að breyta bankalögunum og reka bankastjórnina.

Ég þarf annars ekki að svara hv. þm. Mýr. miklu. Mér dettur sérstaklega í hug, þegar ég hlusta á hann, þessi sálmur: „Vertu oss fáum, fátækum, smáum, líkn í lífsstríði alda“.

Hv. þm. N.-Þ. tók fram ýmislegt, sem ég hefði annars þurft að svara. Það var m. a. þessi makalausa forsjón Landsbankans og bankaráðsins. Ég vona, að hv. þm. Mýr. sé nú farinn að skilja, að hann sé ekki ráðinn í bankaráð til þess að þóknast bankanum. Hann sagði, að vextir mundu lækka þegar Útvegsbankinn væri kominn aftur í lag, og þá væri þessi till. þýðingarlítil. En því má þá ekki þessi till. koma fram fyrir því? Hann kallar hana markleysu. Því segist hann þá ekki vera hreinlega á móti henni? (BÁ: Ég greiði ekki atkv. um hana). Það er skrítið, ef hv. þm. greiðir ekki atkvæði móti markleysu. (BÁ: Ég tek hana ekki alvarlega). Nei, það er skiljanlegt, ef hann tekur ekki Alþingi alvarlega yfirleitt. Ég verð að afsaka hv. þm. með embætti hans.

Ég vil leggja áherzlu á það, sem hæstv. forsrh. og hæstv. forseti þessarar deildar, þm. N.-Þ., hafa sagt, að stj. á að leggjast með þunga á þetta mál og sýna, að það er bankastjórn og bankaráð, sem verða að láta undan, eða að semja ný lög, sem losa þjóðina undan þessari dæmalausu forsjón í bankamálunum.